Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Chronological

Read the Bible in the chronological order in which its stories and events occurred.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Markúsarguðspjall 11

11 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína

og segir við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann.

Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?` Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað."`

Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann.

Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: "Hvers vegna eruð þið að leysa folann?"

Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara.

Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak.

Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum.

Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins!

10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!"

11 Hann fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt, en þar sem komið var kvöld, fór hann til Betaníu með þeim tólf.

12 Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi hann hungurs.

13 Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá, hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því, fann hann ekkert nema blöð, enda var ekki fíknatíð.

14 Hann sagði þá við tréð: "Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!" Þetta heyrðu lærisveinar hans.

15 Þeir komu til Jerúsalem, og hann gekk í helgidóminn og tók að reka út þá, sem voru að selja þar og kaupa, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna.

16 Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn.

17 Og hann kenndi þeim og sagði: "Er ekki ritað: ,Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?` En þér hafið gjört það að ræningjabæli."

18 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum, því að allur lýðurinn hreifst mjög af kenningu hans.

19 Þegar leið að kvöldi, fóru þeir úr borginni.

20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu, að það var visnað frá rótum.

21 Pétur minntist þess, sem gerst hafði, og segir við hann: "Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað."

22 Jesús svaraði þeim: "Trúið á Guð.

23 Sannlega segi ég yður: Hver sem segir við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því.

24 Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.

25 Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar. [

26 Ef þér fyrirgefið ekki, mun faðir yðar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar. ]"

27 Þeir koma aftur til Jerúsalem, og þegar hann var á gangi í helgidóminum, koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir

28 og segja við hann: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér það vald, að þú gjörir þetta?"

29 Jesús sagði við þá: "Ég vil leggja eina spurningu fyrir yður. Svarið henni, og ég mun segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

30 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum? Svarið mér!"

31 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?

32 Eða ættum vér að svara: Frá mönnum?" _ það þorðu þeir ekki fyrir lýðnum, því allir töldu, að Jóhannes hefði verið sannur spámaður.

33 Þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."

Jóhannesarguðspjall 12

12 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.

Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.

Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.

Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:

"Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?"

Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.

Þá sagði Jesús: "Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt."

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum.

10 Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,

11 því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

12 Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

13 Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!"

14 Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:

15 Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.

16 Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann.

17 Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum.

18 Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn.

19 Því sögðu farísear sín á milli: "Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann."

20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.

21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."

22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.

23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.

25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.

26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.

27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:

28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!" Þá kom rödd af himni: "Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt."

29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: "Engill var að tala við hann."

30 Jesús svaraði þeim: "Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.

31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.

32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín."

33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

34 Mannfjöldinn svaraði honum: "Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?"

35 Þá sagði Jesús við þá: "Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.

36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins." Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.

37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann,

38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber?

39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað:

40 Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá.

41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann.

42 Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir.

43 Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.

44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,

45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.

46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.

47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.

48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.

49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.

50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society