Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Prédikarinn 3:1-13

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.

Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma, að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma,

að deyða hefir sinn tíma og að lækna hefir sinn tíma, að rífa niður hefir sinn tíma og að byggja upp hefir sinn tíma,

að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma,

að kasta steinum hefir sinn tíma og að tína saman steina hefir sinn tíma, að faðmast hefir sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefir sinn tíma,

að leita hefir sinn tíma og að týna hefir sinn tíma, að geyma hefir sinn tíma og að fleygja hefir sinn tíma,

að rífa sundur hefir sinn tíma og að sauma saman hefir sinn tíma, að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma,

að elska hefir sinn tíma og að hata hefir sinn tíma, ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.

Hvern ávinning hefir starfandinn af öllu striti sínu?

10 Ég virti fyrir mér þá þraut, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á.

11 Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.

12 Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist.

13 En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.

Sálmarnir 8

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Opinberun Jóhannesar 21:1-6

21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.

Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.

Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.

Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."

Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."

Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.

Matteusarguðspjall 25:31-46

31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.

32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.

33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.

34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.

35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`

37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?

38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`

40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`

41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.

42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,

43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`

44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`

45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`

46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society