Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Old/New Testament

Each day includes a passage from both the Old Testament and New Testament.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Esekíel 8-10

Það var á sjötta ári, fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá er ég sat í húsi mínu, og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins Guðs kom þar yfir mig.

Og ég sá, og sjá, þar var mynd, ásýndum sem maður. Þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur, en frá lendum hans og upp eftir var að sjá sem bjarma, eins og ljómaði af lýsigulli.

Og hann rétti út líkast sem hönd væri og tók í höfuðhár mitt, og andinn hóf mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegri sýn, að dyrum innra hliðsins, er snýr mót norðri, þar er líkansúlan stóð, sú er vakti afbrýði Drottins.

Og sjá, þar var dýrð Ísraels Guðs, alveg eins og í sýn þeirri, er ég hafði séð í dalnum.

Hann sagði við mig: "Mannsson, hef upp augu þín og lít í norðurátt!" Og ég hóf upp augu mín og leit í norðurátt. Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum, en þú munt enn sjá miklar svívirðingar."

Hann leiddi mig að dyrum forgarðsins. Og er ég leit á, var þar gat eitt á veggnum.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, brjót þú gat í gegnum vegginn." Og er ég braut gat í gegnum vegginn, þá voru þar dyr.

Og hann sagði við mig: "Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi."

10 Ég gekk inn og litaðist um. Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna.

11 Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss og Jaasanja Safansson mitt á meðal þeirra svo sem forstjóri þeirra, og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur.

12 Og hann sagði við mig: "Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ,Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið."`

13 Því næst sagði hann við mig: "Þú munt enn sjá miklar svívirðingar, er þeir hafa í frammi."

14 Hann leiddi mig að dyrunum á norðurhliði musteris Drottins. Þar sátu konurnar, þær er grétu Tammús.

15 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Þú munt enn sjá svívirðingar, sem meiri eru en þessar."

16 Hann leiddi mig inn í innra forgarð húss Drottins, og voru þá þar fyrir dyrum musteris Drottins, milli forsalsins og altarisins, um tuttugu og fimm menn. Sneru þeir bökum við musteri Drottins, en ásjónum sínum í austur, og tilbáðu sólina í austri.

17 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Nægir Júdamönnum það eigi að hafa í frammi þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó að þeir ekki þar á ofan fylli landið með glæp og reiti mig hvað eftir annað til reiði? Sjá, hversu þeir halda vöndlinum upp að nösum sér.

18 Fyrir því vil ég og fara mínu fram í reiði: Ég vil ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Og þótt þeir þá kalli hárri röddu í eyru mín, þá mun ég ekki heyra þá."

Þessu næst kallaði hann hárri röddu í eyru mín: "Refsingar borgarinnar nálgast!"

Þá komu sex menn frá efra hliðinu, sem snýr í norður, og hafði hver þeirra eyðingarverkfæri í hendi sér, og meðal þeirra var einn maður, sem var líni klæddur og hafði skriffæri við síðu sér. Þeir komu og námu staðar hjá eiraltarinu.

Dýrð Ísraels Guðs hafði hafið sig frá kerúbunum, þar sem hún hafði verið, yfir að þröskuldi hússins. Og hann kallaði á línklædda manninn, sem hafði skriffærin við síðu sér.

Og Drottinn sagði við hann: "Gakk þú mitt í gegnum borgina, mitt í gegnum Jerúsalem, og set merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni."

En til hinna mælti hann að mér áheyrandi: "Farið á eftir honum um borgina og höggvið niður, lítið engan vægðarauga og sýnið enga meðaumkun.

Öldunga og æskumenn, meyjar og börn og konur skuluð þér brytja niður, en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á. Og takið fyrst til hjá helgidómi mínum!" Og þeir tóku fyrst til á öldungum þeim, sem voru fyrir framan musterið.

Og hann sagði við þá: "Horfið ekki í að saurga musterið og fyllið strætin vegnum mönnum. Gangið nú út!" Þeir gengu þá út og hjuggu niður mannfólkið í borginni.

Meðan þeir brytjuðu niður, féll ég fram á ásjónu mína, kallaði og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels, þar sem þú eys út reiði þinni yfir Jerúsalem?"

Þá sagði hann við mig: "Misgjörð Ísraelsmanna og Júdamanna er afskaplega mikil, og landið er fullt af blóðugu ranglæti og borgin er full af ofbeldisverkum, því að þeir segja: ,Drottinn hefir yfirgefið landið` og ,Drottinn sér það ekki.`

10 Fyrir því skal ég heldur ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Ég læt athæfi þeirra þeim sjálfum í koll koma."

11 Þá kom línklæddi maðurinn, sem hafði skriffærin við síðu sér, aftur og sagði: "Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér."

10 Ég sá, og sjá: Á festingunni, er var yfir höfði kerúbanna, var því líkast sem safírsteinn væri. Eitthvað, sem tilsýndar var sem hásæti í laginu, sást uppi yfir þeim.

Þá sagði hann við línklædda manninn: "Gakk inn á millum hjólanna undir kerúbunum, tak handfylli þína af glóðum milli kerúbanna og dreif þeim út yfir borgina." Og hann gekk þar inn að mér ásjáandi.

En kerúbarnir stóðu hægra megin við musterið, þegar maðurinn gekk inn, og fyllti skýið innra forgarðinn.

En dýrð Drottins hóf sig frá kerúbunum yfir á þröskuld musterisins. Varð musterið þá fullt af skýmekki, en forgarðurinn fylltist ljóma af dýrð Drottins.

Og vængjaþytur kerúbanna heyrðist allt til hins ytra forgarðs, eins og rödd Guðs almáttugs, þá er hann talar.

Nú er hann hafði boðið línklædda manninum og sagt: "Tak eld á millum hjólanna, á millum kerúbanna!" _ þá gekk hann til og staðnæmdist hjá einu hjólinu.

Þá rétti einn kerúbinn hönd sína út milli kerúbanna að eldinum, sem var á milli kerúbanna, tók þar af og fékk í hendur línklædda manninum. Hann tók við og gekk burt.

En á kerúbunum sást eitthvað, sem líktist mannshendi, undir vængjum þeirra.

Ég leit til, og voru þá fjögur hjól hjá kerúbunum, sitt hjól hjá hverjum kerúb, og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolítstein.

10 Og að því er gerð þeirra snertir, þá voru þau öll fjögur samlík, eins og eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.

11 Þegar þau gengu, gengu þau til allra fjögurra hliða. Þau snerust eigi við í göngunni, heldur gengu þau í þá átt, sem höfuðið sneri, þau snerust eigi við í göngunni.

12 Og allur líkami þeirra og bak þeirra, hendur og vængir voru alsett augum allt umhverfis á þeim fjórum.

13 En hjólin voru í mín eyru nefnd "hvirfilbylur".

14 Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit.

15 Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kebarfljótið.

16 Og þegar kerúbarnir gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar kerúbarnir hófu upp vængi sína til þess að lyfta sér frá jörðinni, þá snerust hjólin ekki burt frá þeim.

17 Þegar þeir stóðu kyrrir, stóðu þau og kyrr, og þegar þeir hófust upp, hófust þau og upp með þeim, því að andi verunnar var í þeim.

18 Dýrð Drottins fór nú burt af þröskuldi musterisins og nam staðar uppi á kerúbunum.

19 Þá hófu kerúbarnir upp vængi sína og lyftu sér frá jörðinni að mér ásjáandi, er þeir fóru burt, og hjólin samtímis þeim. Og þeir námu staðar úti fyrir austurhliði musteris Drottins, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.

20 Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð undir Ísraels Guði við Kebarfljótið, og ég þekkti, að það voru kerúbar.

21 Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver, og undir vængjum sér eitthvað, sem líktist mannshöndum.

22 Og hvað andlitsskapnaðinn snerti, þá voru það sömu andlitin, sem ég hafði séð við Kebarfljótið; þeir gengu hver fyrir sig beint af augum fram.

Bréfið til Hebrea 13

13 Bróðurkærleikurinn haldist.

Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.

Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama.

Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.

Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: "Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."

Því getum vér öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?

Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.

Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.

Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.

10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því.

11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar.

12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.

13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.

15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.

16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.

18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.

19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.

20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,

21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.

23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.

24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society