Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Old/New Testament

Each day includes a passage from both the Old Testament and New Testament.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Míka 1-3

Orð Drottins, sem kom til Míka frá Móreset á dögum Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, það er honum vitraðist um Samaríu og Jerúsalem.

Heyrið, allir lýðir! Hlusta þú, jörð, og allt sem á þér er! Og Drottinn Guð veri vottur gegn yður, Drottinn frá sínu heilaga musteri.

Sjá, Drottinn mun út fara frá bústað sínum, mun ofan stíga og ganga eftir hæðum jarðarinnar.

Fjöllin munu bráðna undan honum og dalirnir klofna sem vax fyrir eldi, sem vatn, er steypist ofan bratta hlíð.

Og allt þetta sakir misgjörðar Jakobs og sakir syndar Ísraels húss. Hver er þá misgjörð Jakobs? Er það ekki Samaría? Og hver er synd Júda? Er það ekki Jerúsalem?

Ég gjöri því Samaríu að grjótrúst á víðavangi, að gróðurekru undir víngarða, og velti steinum hennar ofan í dalinn og læt sjást í beran grundvöllinn.

Öll skurðgoð hennar skulu sundur brotin verða og allar helgigjafir hennar í eldi brenndar, og öll guðalíkneski hennar vil ég framselja til eyðingar, því að hún hefir dregið þær saman úr hórgjöldum, og að hórgjöldum skulu þær aftur verða.

Vegna þessa vil ég harma og kveina, ganga berfættur og skikkjulaus, telja mér harmatölur eins og sjakalarnir og halda sorgarkvein eins og strútsfuglarnir.

Því að ólæknandi eru sár hennar. Já, það kemur allt til Júda, nær allt að hliðum þjóðar minnar, allt að Jerúsalem.

10 Segið ekki frá því í Gat, grátið ekki hátt! Veltið yður í duftinu í Betleafra!

11 Gangið fram smánarlega naktir, þér íbúar Safír! Íbúarnir í Saanan voga sér ekki út, harmakveinið í Bet Haesel aftrar yður frá að staðnæmast þar.

12 Því að íbúar Marót eru kvíðandi um sinn hag, já, ógæfa stígur niður frá Drottni allt að hliðum Jerúsalem.

13 Beitið gæðingum fyrir vagnana, þér íbúar Lakís! Í þeirri borg kom fyrst upp synd dótturinnar Síon; já, hjá yður fundust misgjörðir Ísraels.

14 Fyrir því verður þú að segja skilið við Móreset Gat. Húsin í Aksíb reynast Ísraelskonungum svikul.

15 Enn læt ég sigurvegarann yfir yður koma, þér íbúar Maresa. Tignarmenni Ísraels munu komast allt til Adúllam.

16 Raka hár þitt og skegg vegna þinna ástfólgnu barna, gjör skalla þinn breiðan sem á gammi, því að þau verða að fara hernumin burt frá þér.

Vei þeim, sem hugsa upp rangindi og hafa illt með höndum í hvílurúmum sínum og framkvæma það, þegar ljómar af degi, jafnskjótt og þeir megna.

Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.

Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég bý yfir óhamingju, sem ég mun senda þessari kynslóð, og þér skuluð ekki fá af yður hrundið né gengið hnarreistir undir, því að það munu verða vondir tímar.

Á þeim degi munu menn háðkvæði um yður kveða og hefja harmatölur á þessa leið: "Vér erum gjörsamlega eyðilagðir, landeign þjóðar minnar er úthlutað með mæliþræði, og enginn fær mér hana aftur. Ökrum vorum er skipt milli þeirra, er oss hafa hertekið!"

Fyrir því skalt þú engan hafa, er dragi mæliþráð yfir landskika í söfnuði Drottins.

"Prédikið ekki," _ svo prédika þeir. "Menn eiga ekki að prédika um slíkt! Skömmunum linnir ekki!"

Hvílíkt tal, Jakobs hús! Er Drottinn óþolinmóður, eða eru gjörðir hans slíkar? Eru ekki orð hans gæskurík við þá, sem breyta ráðvandlega?

En þjóð mín hefir nú þegar lengi risið upp á móti mér sem óvinur. Utan af kyrtlinum dragið þér yfirhöfnina af þeim, sem ugglausir fara um veginn, sem fráhverfir eru stríði.

Konur þjóðar minnar rekið þér út úr húsunum, sem hafa verið yndi þeirra, rænið börn þeirra prýði minni að eilífu.

10 Af stað og burt með yður! Því að hér er ekki samastaður fyrir yður vegna saurgunarinnar, sem veldur tjóni, og það ólæknandi tjóni.

11 Ef einhver, sem færi með hégóma og lygar, hræsnaði fyrir þér og segði: "Ég skal spá þér víni og áfengum drykk," það væri spámaður fyrir þessa þjóð!

12 Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.

13 Forustusauðurinn fer fyrir þeim, þeir ryðjast fram, fara í gegnum hliðið og halda út um það, og konungur þeirra fer fyrir þeim og Drottinn er í broddi fylkingar þeirra.

Ég sagði: Heyrið, þér höfðingjar Jakobs og stjórnendur Ísraels húss! Er það ekki yðar að vita, hvað rétt er?

En þeir hata hið góða og elska hið illa, flá skinnið af mönnum og holdið af beinum þeirra.

Þeir eta hold þjóðar minnar, þeir flá skinnið af þeim og brjóta bein þeirra, hluta þau sundur eins og steik í potti, eins og kjöt á suðupönnu.

Þá munu þeir hrópa til Drottins, en hann mun ekki svara þeim, og hann mun byrgja auglit sitt fyrir þeim, þegar sá tími kemur, af því að þeir hafa ill verk í frammi haft.

Svo mælir Drottinn til spámannanna, sem leitt hafa þjóð mína afvega: Þeir boða hamingju meðan þeir hafa nokkuð tanna milli, en segja þeim stríð á hendur, er ekki stingur neinu upp í þá.

Fyrir því skal sú nótt koma, að þér sjáið engar sýnir, og það myrkur, að þér skuluð engu spá. Sólin skal ganga undir fyrir spámönnunum og dagurinn myrkvast fyrir þeim.

Þeir sem sjá sjónir, skulu þá blygðast sín og spásagnamennirnir fyrirverða sig. Þeir munu allir hylja kamp sinn, því að ekkert svar kemur frá Guði.

Ég þar á móti er fullur af krafti, af anda Drottins, og af rétti og styrkleika, til þess að boða Jakob misgjörð hans og Ísrael synd hans.

Heyrið þetta, þér höfðingjar Jakobs húss og þér stjórnendur Ísraels húss, þér sem hafið viðbjóð á réttvísinni og gjörið allt bogið, sem beint er,

10 þér sem byggið Síon með manndrápum og Jerúsalem með glæpum.

11 Höfðingjar hennar dæma fyrir mútur og prestar hennar veita fræðslu fyrir kaup. Spámenn hennar spá fyrir peninga og reiða sig í því efni á Drottin og segja: "Er ekki Drottinn vor á meðal? Engin ógæfa kemur yfir oss!"

12 Fyrir því skal Síon plægð verða að akri yðar vegna og Jerúsalem verða að rúst og musterisfjallið að skógarhæðum.

Opinberun Jóhannesar 11

11 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.

Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.

Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."

Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.

Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða.

Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.

Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.

Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur.

Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf.

10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa.

11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá.

12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.

13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.

14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.

15 Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: "Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda."

16 Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð

17 og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur.

18 Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.

19 Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society