Old/New Testament
1 Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir.
2 Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur,
3 þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann.
4 Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull.
5 Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim.
6 Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi.
7 Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir.
8 Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur.
9 Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram.
10 Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert.
11 Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.
12 Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni.
13 Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur.
14 Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri.
15 Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum.
16 Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.
17 Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu.
18 Og hjólbaugar þeirra _ þeir voru háir og ógurlegir _ hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum.
19 Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig.
20 Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum.
21 Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum.
22 Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra.
23 Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.
24 Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.
25 En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.
26 En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki.
27 Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi.
28 Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.
2 Hann sagði við mig: "Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig."
2 Þá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði.
3 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag.
4 Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!`
5 Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum _ því að þeir eru þverúðug kynslóð _ þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.
6 En þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð.
7 Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber.
8 En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér."
9 Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla.
10 Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.
11 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.
2 Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.
3 Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.
4 Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.
5 Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur."
6 En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.
7 Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.
8 Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.
9 Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.
10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.
11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.
12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.
13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.
14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar.
15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.
16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.
17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum.
18 Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."
19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.
by Icelandic Bible Society