Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 4

Ein af konum spámannasveinanna kallaði til Elísa og mælti: "Þjónn þinn, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist, að þjónn þinn óttaðist Drottin. Nú er lánssalinn kominn til að taka báða drengina mína sér að þrælum."

En Elísa sagði við hana: "Hvað á ég að gjöra fyrir þig? Seg þú mér, hvað þú átt til heima." Hún svaraði: "Ambátt þín á ekkert til heima, nema krús með olífuolíu."

Þá mælti hann: "Far þú þá og fá til láns ílát utan húss hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, og heldur fleiri en færri.

Gakk því næst inn og loka dyrunum á eftir þér og sonum þínum og hell í öll þessi ílát og set þau frá þér jafnóðum og þau fyllast."

Gekk hún þá burt frá honum. Og hún lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir báru að henni, en hún hellti í.

En er ílátin voru full, sagði hún við son sinn: "Fær mér enn ílát." Hann sagði við hana: "Það er ekkert ílát eftir." Þá hætti olífuolían að renna.

Fór hún þá og sagði guðsmanninum frá, en hann sagði: "Far þú nú og sel olíuna og gjald skuld þína, en haf til viðurlífis þér og sonum þínum það, sem afgangs verður."

Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast.

Og hún sagði við mann sinn: "Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur.

10 Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar."

11 Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns.

12 Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann.

13 Þá sagði hann við Gehasí: "Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?"` Hún svaraði: "Ég bý hér á meðal ættfólks míns."

14 Þá sagði Elísa við Gehasí: "Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?" Gehasí mælti: "Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall."

15 Þá sagði Elísa: "Kalla þú á hana." Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum.

16 Þá mælti hann: "Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son." En hún mælti: "Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni."

17 En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni.

18 Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna.

19 Þá sagði hann við föður sinn: "Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!" En faðir hans sagði við svein sinn: "Ber þú hann til móður sinnar."

20 Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann.

21 Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt.

22 Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: "Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur."

23 En hann mælti: "Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur." Hún mælti: "Það gjörir ekkert til!"

24 Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: "Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér."

25 Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Þetta er konan frá Súnem!

26 Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?"` Hún svaraði: "Okkur líður vel."

27 En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: "Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það."

28 Þá mælti hún: "Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?"`

29 Þá sagði hann við Gehasí: "Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins."

30 En móðir sveinsins mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér." Stóð hann þá upp og fór með henni.

31 Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: "Ekki vaknar sveinninn!"

32 Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans.

33 Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins.

34 Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins.

35 Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum.

36 Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: "Tak við syni þínum!"

37 Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.

38 Elísa kom aftur til Gilgal meðan hallæri var í landinu. Og er spámannasveinarnir sátu frammi fyrir honum, sagði hann við svein sinn: "Settu upp stóra pottinn og sjóð rétt matar handa spámannasveinunum."

39 Þá gekk einn út í hagann að tína jurtir og fann villivafteinung og tíndi á honum yfirhöfn sína fulla af villi-agúrkum, fór síðan heim og brytjaði þær í matarpottinn, því að þeir þekktu þær ekki.

40 Síðan helltu þeir upp fyrir mennina til að eta. En er þeir brögðuðu á matnum, hljóðuðu þeir upp yfir sig og sögðu: "Dauðinn er í pottinum, þú guðsmaður!" og þeir gátu ekki etið það.

41 En hann mælti: "Komið með mjöl!" Og hann kastaði því í pottinn. Síðan sagði hann: "Hell nú upp fyrir fólkið, að það megi eta." Þá var ekkert skaðvænt í pottinum.

42 Maður kom frá Baal Salísa og færði guðsmanninum frumgróðabrauð, tuttugu byggbrauð og mulið korn í mal sínum. Og Elísa sagði: "Gefðu fólkinu það að eta."

43 En þjónn hans mælti: "Hvernig get ég borið þetta hundrað mönnum?" Hann svaraði: "Gefðu fólkinu það að eta. Því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa."

44 Þá lagði hann það fyrir þá, en þeir neyttu og gengu frá leifðu, eins og Drottinn hafði sagt.

Fyrra bréf Páls til Tímót 1

Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar

Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar

og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.

Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.

Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.

Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.

Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega

og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum,

10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.

11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.

12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,

13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.

14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.

16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu,

19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.

20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.

Daníel 8

Á þriðja ríkisári Belsasars konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá, sem áður hafði birst mér.

Og ég horfði í sýninni, og var þá, er ég horfði, sem ég væri í borginni Súsa, sem er í Elamhéraði, og ég horfði í sýninni og var ég staddur við Úlaífljótið.

Þá hóf ég upp augu mín og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið. Hann var tvíhyrndur, og há hornin, og þó annað hærra en hitt, og spratt hærra hornið síðar upp.

Ég sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri, og engin dýr gátu við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans. Hann gjörði sem honum leist og framkvæmdi mikla hluti.

En er ég gaf nákvæmlega gætur að, sá ég að geithafur nokkur kom vestan. Leið hann yfir alla jörðina án þess að koma við hana, og hafurinn hafði afar stórt horn milli augnanna.

Hann kom til tvíhyrnda hrútsins, sem ég sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði.

Og ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann varð mjög illur við hann og laust hrútinn og braut bæði horn hans, svo að hrúturinn hafði ekki mátt til að veita honum viðnám. Og hann fleygði honum til jarðar og tróð hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans.

Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur, gegnt höfuðáttunum fjórum.

Og út frá einu þeirra spratt annað lítið horn og óx mjög til suðurs og austurs og mót prýði landanna.

10 Það óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum, og tróð þá undir.

11 Já, það óx móti höfðingja hersins, og það lét afnema hina daglegu fórn, og hans heilagi bústaður var niður rifinn.

12 Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt.

13 Þá heyrði ég einn heilagan tala, og annar heilagur sagði við hinn, sem talaði: "Hvað á hún sér langan aldur þessi sýn um hina daglegu fórn og um hinn hræðilega glæp, frá því er hann framselur helgidóminn og herinn, svo að hann verði niður troðinn?"

14 Og hann sagði við hann: "Tvö þúsund og þrjú hundruð kveld og morgnar, og þá mun helgidómurinn aftur verða kominn í samt lag."

15 Þegar ég, Daníel, sá þessa sýn og leitaðist við að skilja hana, þá stóð allt í einu einhver frammi fyrir mér, líkur manni ásýndar.

16 Og ég heyrði mannsraust milli Úlaí-bakka, sem kallaði og sagði: "Gabríel, útskýr þú sýnina fyrir þessum manni."

17 Og hann gekk til mín, þar sem ég stóð, en er hann kom, varð ég hræddur og féll fram á ásjónu mína. En hann sagði við mig: "Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna."

18 Og meðan hann talaði við mig, leið ég í ómegin til jarðar fram á ásjónu mína, en hann snart mig og reisti mig aftur á fætur, þar er ég hafði staðið.

19 Og hann sagði: "Sjá, ég kunngjöri þér, hvað verða muni, þá er hin guðlega reiði tekur enda, því að sýnin á við tíð endalokanna.

20 Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu,

21 og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn.

22 Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.

23 En er ríki þeirra tekur enda, þá er trúrofarnir hafa fyllt mælinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði illúðlegur og hrekkvís.

24 Vald hans mun mikið verða, og þó eigi fyrir þrótt sjálfs hans. Hann mun gjöra ótrúlega mikið tjón og verða giftudrjúgur í því, er hann tekur sér fyrir hendur. Hann mun voldugum tjón vinna og hugur hans beinast gegn hinum heilögu.

25 Vélræðum mun hann til vegar koma með hendi sinni og hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun, er þeir eiga sér einskis ills von. Já, hann mun rísa gegn höfðingja höfðingjanna, en þó sundur mulinn verða án manna tilverknaðar.

26 Og sýnin um ,kveld og morgun`, sem um var talað, hún er sönn, en leyn þú þeirri sýn, því að hún á sér langan aldur."

27 En ég, Daníel, varð sjúkur um hríð. Því næst komst ég á fætur aftur og þjónaði að erindum konungs, og ég var mjög undrandi yfir sýn þessari, en skildi hana eigi.

Sálmarnir 116

116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.

Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.

Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"

Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.

Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.

Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.

Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.

Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."

11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."

12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?

13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.

14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.

15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.

16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.

17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.

18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,

19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society