Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Rutarbók 1

Í þá daga, er dómararnir stjórnuðu, bar svo til, að hallæri var í landinu. Fór þá maður nokkur frá Betlehem í Júda til þess að dveljast sem útlendingur í Móabslandi ásamt konu sinni og tveimur sonum sínum.

Þessi maður hét Elímelek og kona hans Naomí, en synir hans tveir Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrataætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og dvöldust þar.

Þá dó Elímelek, maður Naomí, en hún lifði eftir með báðum sonum sínum.

Þeir gengu að eiga móabítískar konur, og hét önnur Orpa, en hin Rut. Og þeir bjuggu þar hér um bil tíu ár.

Þá dóu þeir líka báðir, Mahlón og Kiljón, og konan lifði ein eftir báða sonu sína og mann sinn.

Þá bjóst Naomí til að hverfa aftur heim frá Móabslandi með tengdadætrum sínum, því að hún hafði heyrt í Móabslandi, að Drottinn hefði vitjað lýðs síns og gefið þeim brauð.

Lagði hún nú af stað þaðan, er hún hafði verið, og báðar tengdadætur hennar með henni. En er þær voru farnar á leið til þess að hverfa aftur til Júdalands,

þá sagði Naomí við báðar tengdadætur sínar: "Farið, snúið við, hvor um sig til húss móður sinnar. Drottinn auðsýni ykkur gæsku, eins og þið hafið auðsýnt hinum látnu og mér.

Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns." Síðan kyssti hún þær. En þær tóku að gráta hástöfum

10 og sögðu við hana: "Nei, við viljum hverfa aftur með þér til þíns fólks!"

11 Naomí svaraði: "Hverfið aftur, dætur mínar! Hví viljið þið fara með mér? Mun ég enn bera sonu í skauti mínu, er verða megi menn ykkar?

12 Hverfið aftur, dætur mínar, farið heim, því að ég er orðin of gömul til að giftast aftur. En setjum nú svo, að ég hugsaði: ,Ég hefi enn von,` og að ég giftist meira að segja í kveld og fæddi einnig sonu, ættuð þið fyrir þá sök að bíða, til þess er þeir yrðu fulltíða?

13 Ættuð þið fyrir þá sök að loka ykkur inni og ekki giftast? Nei, dætur mínar, mig tekur mjög sárt til ykkar, því að hönd Drottins hefir lagst þungt á mig."

14 Þá tóku þær enn að gráta hástöfum. Og Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi, en Rut gat ekki slitið sig frá henni.

15 Þá mælti Naomí: "Sjá, mágkona þín er snúin heim aftur til síns fólks og síns guðs. Far þú heim aftur á eftir mágkonu þinni."

16 En Rut svaraði: "Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.

17 Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig."

18 Og er Naomí sá, að hún var fastráðin í því að fara með henni, hætti hún að tala um fyrir henni.

19 Síðan héldu þær báðar áfram, uns þær komu til Betlehem. En er þær komu til Betlehem, komst öll borgin í uppnám út af þeim og konur sögðu: "Er þetta Naomí?"

20 Og hún sagði við þær: "Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma.

21 Rík fór ég héðan, en tómhenta hefir Drottinn látið mig aftur hverfa. Hví kallið þér mig Naomí, úr því Drottinn hefir vitnað í móti mér og hinn Almáttki hrellt mig?"

22 Þannig hvarf Naomí heim aftur og með henni Rut hin móabítíska, tengdadóttir hennar, sem heim hvarf frá Móabslandi. Þær komu til Betlehem í byrjun byggskurðar.

Postulasagan 26

26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:

"Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,

því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.

Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.

Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.

Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum

og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.

Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?

Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.

10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.

11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.

12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum,

13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða.

14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.`

15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.

17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig

18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.`

19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun,

20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.

21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana.

22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi,

23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið."

24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni, segir Festus hárri raustu: "Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan."

25 Páll svaraði: "Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti.

26 Konungur kann skil á þessu, og við hann tala ég djarflega. Eigi ætla ég, að honum hafi dulist neitt af þessu, enda hefur það ekki gjörst í neinum afkima.

27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit, að þú gjörir það."

28 Þá sagði Agrippa við Pál: "Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn."

29 En Páll sagði: "Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er, að frátöldum fjötrum mínum."

30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir, er þar sátu með þeim.

31 Þegar þau voru farin, sögðu þau sín á milli: "Þessi maður fremur ekkert, sem varðar dauða eða fangelsi."

32 En Agrippa sagði við Festus: "Þennan mann hefði mátt láta lausan, ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans."

Jeremía 36

36 Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag;

vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd.

Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað.

Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: "Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins.

Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum.

Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð."

Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins.

En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni.

10 Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins.

11 En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni,

12 þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir.

13 En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum.

14 Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: "Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað." Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra.

15 En þeir sögðu við hann: "Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss." Og Barúk gjörði svo.

16 En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: "Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!"

17 Jafnframt spurðu þeir Barúk: "Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?"

18 Og Barúk svaraði þeim: "Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki."

19 Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: "Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð."

20 Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu.

21 Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu.

22 Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann.

23 Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu.

24 En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín,

25 og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki,

26 heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, _ en Drottinn fól þá.

27 Þá kom orð Drottins til Jeremía, eftir að konungur hafði brennt bókrolluna, sem hafði inni að halda orð þau, er Barúk hafði ritað af munni Jeremía:

28 Tak þér aftur aðra bókrollu og rita á hana öll hin fyrri orðin, er voru á fyrri bókrollunni, þeirri sem Jójakím Júdakonungur brenndi.

29 En viðvíkjandi Jójakím Júdakonungi skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Þú hefir brennt bókrolluna með þeim ummælum: ,Hvers vegna hefir þú skrifað á hana: Babelkonungur mun vissulega koma og eyða þetta land og útrýma úr því mönnum og skepnum!`

30 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Júdakonung: Hann skal engan niðja eiga, er sitji í hásæti Davíðs, og hræ hans skal liggja úti í hitanum á daginn og kuldanum á nóttinni.

31 Og ég vil hegna honum og niðjum hans og þjónum hans fyrir misgjörð þeirra og ég vil láta yfir þá koma og yfir Jerúsalembúa og Júdamenn alla þá ógæfu, er ég hefi hótað þeim, án þess að þeir hlýddu.

32 Og Jeremía tók aðra bókrollu og fékk hana Barúk skrifara Neríasyni, og hann skrifaði á hana af munni Jeremía öll orð bókar þeirrar, er Jójakím Júdakonungur hafði brennt í eldi, _ en auk þeirra var enn fremur bætt við mörgum orðum líkum hinum.

Jeremía 45

45 Orðið sem Jeremía spámaður talaði til Barúks Neríasonar, þá er hann skrifaði þessi orð í bókina eftir forsögn Jeremía á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um þig, Barúk:

Þú sagðir: "Vei mér, því að Drottinn bætir harmi við kvöl mína. Ég er þreyttur orðinn af andvörpum mínum, og hvíld finn ég enga!"

Svo skalt þú til hans mæla: Svo segir Drottinn: Sjá, það sem ég hefi byggt, ríf ég niður, og það sem ég hefi gróðursett, uppræti ég.

En þú ætlar þér mikinn hlut! Girnst það eigi! Því að sjá, ég leiði ógæfu yfir allt hold _ segir Drottinn. En þér gef ég líf þitt að herfangi, hvert sem þú fer.

Sálmarnir 9

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society