Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Read the Gospels in 40 Days

Read through the four Gospels--Matthew, Mark, Luke, and John--in 40 days.
Duration: 40 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Matteusarguðspjall 1-3

Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.

Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.

Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,

Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,

Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,

og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,

Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,

Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,

Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,

10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.

11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.

12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,

13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,

14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,

15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,

16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.

17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.

18 Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.

19 Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.

20 Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.

21 Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra."

22 Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins:

23 "Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel," það þýðir: Guð með oss.

24 Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.

25 Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem

og sögðu: "Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu."

Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum.

Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: "Hvar á Kristur að fæðast?"

Þeir svöruðu honum: "Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:

Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels."

Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst.

Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: "Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu."

Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.

10 Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög,

11 þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.

12 En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því."

14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.

15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: "Frá Egyptalandi kallaði ég son minn."

16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.

17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:

18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.

19 Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi

20 og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins."

21 Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.

22 En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi.

23 Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."

Á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbyggðum Júdeu.

Hann sagði: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang.

Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð,

létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

Þegar hann sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?

Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni!

Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.

10 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.

11 Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.

12 Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

13 Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum.

14 Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: "Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!"

15 Jesús svaraði honum: "Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti." Og hann lét það eftir honum.

16 En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.

17 Og rödd kom af himnum: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society