Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Read the Gospels in 40 Days

Read through the four Gospels--Matthew, Mark, Luke, and John--in 40 days.
Duration: 40 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 1-3

Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor,

samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins.

Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus,

svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um.

Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet.

Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins.

En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.

En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði,

að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi.

10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.

11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið.

12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann.

13 En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.

14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans.

15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.

16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra.

17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."

18 Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."

19 En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn.

20 Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."

21 Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu.

22 En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram.

23 Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín.

24 En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð, og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði:

25 "Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna."

26 En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret,

27 til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María.

28 Og engillinn kom inn til hennar og sagði: "Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér."

29 En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri.

30 Og engillinn sagði við hana: "Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði.

31 Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.

32 Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans,

33 og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða."

34 Þá sagði María við engilinn: "Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?"

35 Og engillinn sagði við hana: "Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.

36 Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja,

37 en Guði er enginn hlutur um megn."

38 Þá sagði María: "Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." Og engillinn fór burt frá henni.

39 En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda.

40 Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu.

41 Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda

42 og hrópaði hárri röddu: "Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns.

43 Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín?

44 Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.

45 Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni."

46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,

47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.

48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.

49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.

50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.

51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,

53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.

54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,

55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.

56 En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.

57 Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son.

58 Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.

59 Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum.

60 Þá mælti móðir hans: "Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes."

61 En þeir sögðu við hana: "Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni."

62 Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.

63 Hann bað um spjald og reit: "Jóhannes er nafn hans," og urðu þeir allir undrandi.

64 Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð.

65 En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu.

66 Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: "Hvað mun barn þetta verða?" Því að hönd Drottins var með honum.

67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:

68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.

69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,

70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,

71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.

72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,

73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum

74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust

75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.

76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans

77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.

78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor

79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.

80 En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags, er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.

Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,

að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

10 en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu."

13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: "Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss."

16 Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu.

17 Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta.

18 Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim.

19 En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.

20 Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

21 Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.

22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _

23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: "Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni," _

24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, "tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur."

25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.

26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,

28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

29 "Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,

30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,

32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael."

33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.

34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: "Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar."

36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær

37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.

38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

39 Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret.

40 En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.

41 Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni.

42 Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni.

43 Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi.

44 Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.

45 En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.

47 En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.

48 Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: "Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin."

49 Og hann sagði við þau: "Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?"

50 En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

51 Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.

52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,

í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.

Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.

Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.

Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?

Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.

Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."

10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"

11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."

12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"

13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."

14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."

15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.

16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.

17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.

19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.

20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.

21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,

22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí,

24 sonar Mattats, sonar Leví, sonar Melkí, sonar Jannaí, sonar Jósefs,

25 sonar Mattatíass, sonar Amoss, sonar Naúms, sonar Eslí, sonar Naggaí,

26 sonar Maats, sonar Mattatíass, sonar Semeíns, sonar Jóseks, sonar Jóda,

27 sonar Jóhanans, sonar Hresa, sonar Serúbabels, sonar Sealtíels, sonar Nerí,

28 sonar Melkí, sonar Addí, sonar Kósams, sonar Elmadams, sonar Ers,

29 sonar Jesú, sonar Elíesers, sonar Jóríms, sonar Mattats, sonar Leví,

30 sonar Símeons, sonar Júda, sonar Jósefs, sonar Jónams, sonar Eljakíms,

31 sonar Melea, sonar Menna, sonar Mattata, sonar Natans, sonar Davíðs,

32 sonar Ísaí, sonar Óbeðs, sonar Bóasar, sonar Salmons, sonar Naksons,

33 sonar Ammínadabs, sonar Admíns, sonar Arní, sonar Esroms, sonar Peres, sonar Júda,

34 sonar Jakobs, sonar Ísaks, sonar Abrahams, sonar Tara, sonar Nakórs,

35 sonar Serúgs, sonar Reú, sonar Pelegs, sonar Ebers, sonar Sela,

36 sonar Kenans, sonar Arpaksads, sonar Sems, sonar Nóa, sonar Lameks,

37 sonar Metúsala, sonar Enoks, sonar Jareds, sonar Mahalalels, sonar Kenans,

38 sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society