Print Page Options Listen to Reading
Previous Prev Day Next DayNext

The Daily Audio Bible

This reading plan is provided by Brian Hardin from Daily Audio Bible.
Duration: 731 days

Today's audio is from the NET. Switch to the NET to read along with the audio.

Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 42:18-43:34

18 En á þriðja degi sagði Jósef við þá: "Þetta skuluð þér gjöra, að þér megið lífi halda, því að ég óttast Guð.

19 Ef þér eruð hrekklausir, þá verði einn af yður bræðrum eftir í böndum í dýflissunni, þar sem þér voruð, en farið þér hinir og flytjið heim korn til bjargar þurfandi heimilum yðar.

20 Komið svo til mín með yngsta bróður yðar, þá munu orð yðar reynast sönn og þér eigi lífi týna." Og þeir gjörðu svo.

21 Þá sögðu þeir hver við annan: "Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn, því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir."

22 Rúben svaraði þeim og mælti: "Sagði ég ekki við yður: ,Syndgist ekki á sveininum,` en þér daufheyrðust við. Og sjá, nú er einnig blóðs hans krafist."

23 En þeir vissu ekki, að Jósef skildi þá, því að þeir höfðu túlk.

24 Þá vék Jósef frá þeim og grét. Síðan sneri hann til þeirra aftur og talaði við þá og tók Símeon úr flokki þeirra og batt hann fyrir augum þeirra.

25 Síðan bauð hann að fylla sekki þeirra korni og láta silfurpeninga hvers eins þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar. Og var svo gjört við þá.

26 Þá létu þeir korn sitt upp á asna sína og fóru af stað.

27 En er einn af þeim opnaði sekk sinn til að gefa asna sínum fóður á gistingarstaðnum, sá hann silfurpeninga sína, og sjá, þeir lágu ofan á í sekk hans.

28 Og hann sagði við bræður sína: "Silfurpeningar mínir eru komnir aftur, sjá, þeir liggja hér í sekk mínum." Þá féllst þeim hugur, og skjálfandi litu þeir hver á annan og sögðu: "Hví hefir Guð gjört oss þetta?"

29 Þeir komu til Jakobs föður síns í Kanaanlandi og sögðu honum frá öllu, sem fyrir þá hafði komið, með þessum orðum:

30 "Maðurinn, landsherrann, talaði harðlega til vor og fór með oss sem værum vér komnir til landsins í njósnarerindum.

31 En vér sögðum við hann: ,Vér erum hrekklausir, vér erum ekki njósnarmenn.

32 Vér erum tólf bræður, synir föður vors. Einn er ekki framar á lífi, og sá yngsti er nú hjá föður vorum í Kanaanlandi.`

33 Þá sagði maðurinn, landsherrann, við oss: ,Af þessu skal ég marka, hvort þér eruð hrekklausir: Látið einn af yður bræðrum verða eftir hjá mér, og takið korn til bjargar þurfandi heimilum yðar og farið leiðar yðar.

34 En komið með yngsta bróður yðar til mín, svo að ég sjái, að þér eruð ekki njósnarmenn, heldur að þér eruð hrekklausir. Þá skal ég skila yður bróður yðar aftur og þér megið fara allra yðar ferða um landið."`

35 En þeir helltu úr sekkjum sínum, sjá, þá var sjóður hvers eins í sekk hans. Og er þeir og faðir þeirra sáu sjóði þeirra, urðu þeir óttaslegnir.

36 Jakob faðir þeirra sagði við þá: "Þér gjörið mig barnlausan. Jósef er farinn, Símeon er farinn, og nú ætlið þér að taka Benjamín. Allt kemur þetta yfir mig."

37 Þá sagði Rúben við föður sinn: "Þú mátt deyða báða sonu mína, ef ég færi þér hann ekki aftur. Trúðu mér fyrir honum, og ég skal aftur koma með hann til þín."

38 En Jakob sagði: "Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar."

43 Hallærið var mikið í landinu.

Og er þeir höfðu etið upp kornið, sem þeir höfðu sótt til Egyptalands, sagði faðir þeirra við þá: "Farið aftur og kaupið oss nokkuð af vistum."

Þá svaraði Júda honum og mælti: "Maðurinn lagði ríkt á við oss og sagði: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.`

Ef þú sendir bróður vorn með oss, þá skulum vér fara og kaupa þér vistir.

En ef þú vilt ekki senda hann með, þá förum vér hvergi, því að maðurinn sagði við oss: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður."`

Ísrael mælti: "Hví hafið þér gjört mér svo illa til, að segja manninum, að þér ættuð einn bróður enn?"

Þeir svöruðu: "Maðurinn spurði ítarlega um oss og ætt vora og sagði: ,Er faðir yðar enn á lífi? Eigið þér einn bróður enn?` Og vér sögðum honum eins og var. Gátum vér vitað, að hann mundi segja:

,Komið hingað með bróður yðar`?" Júda sagði við Ísrael föður sinn: "Láttu sveininn fara með mér. Þá skulum vér taka oss upp og fara af stað, svo að vér megum lífi halda og ekki deyja, bæði vér og þú og börn vor.

Ég skal ábyrgjast hann, af minni hendi skalt þú krefjast hans. Komi ég ekki með hann aftur til þín og leiði ég hann ekki fram fyrir þig, skal ég vera sekur við þig alla ævi.

10 Því að hefðum vér ekki tafið, þá værum vér nú komnir aftur í annað sinn."

11 Þá sagði Ísrael faðir þeirra við þá: "Ef svo verður að vera, þá gjörið þetta: Takið af gæðum landsins í sekki yðar og færið manninum að gjöf lítið eitt af balsami og lítið eitt af hunangi, reykelsi og myrru, pistasíuhnetur og möndlur.

12 Og takið með yður tvöfalt gjald og hafið aftur með yður silfurpeningana, sem komu aftur ofan á í sekkjum yðar. Vera má, að það hafi verið af vangá.

13 Og takið bróður yðar. Leggið því næst upp og farið aftur til mannsins.

14 Og Almáttugur Guð gefi, að maðurinn sýni yður nú miskunnsemi og láti lausan við yður hinn bróður yðar og Benjamín. Ég hefi hvort sem er þegar orðið fyrir sonamissi."

15 Og mennirnir tóku þessa gjöf; líka tóku þeir tvöfalt gjald með sér og Benjamín. Og þeir lögðu af stað og fóru til Egyptalands og gengu fyrir Jósef.

16 Er Jósef sá Benjamín með þeim, sagði hann við ráðsmann sinn: "Far þú með þessa menn inn í húsið og slátra þú og matreið, því að þessir menn skulu eta með mér miðdegisverð í dag."

17 Og maðurinn gjörði sem Jósef bauð og fór með mennina inn í hús Jósefs.

18 Mennirnir urðu hræddir, af því að þeir voru leiddir inn í hús Jósefs, og sögðu: "Sakir silfurpeninganna, sem aftur komu í sekki vora hið fyrra sinnið, erum vér hingað leiddir, svo að hann geti ráðist að oss og vaðið upp á oss og gjört oss að þrælum og tekið asna vora."

19 Þá gengu þeir til ráðsmanns Jósefs og töluðu við hann úti fyrir dyrum hússins

20 og sögðu: "Æ, herra minn, vér komum hingað í fyrra skiptið að kaupa vistir.

21 En svo bar til, er vér komum í áfangastað og opnuðum sekki vora, sjá, þá voru silfurpeningar hvers eins ofan á í sekk hans, silfurpeningar vorir með fullri vigt, og vér erum nú komnir með þá aftur.

22 Og annað silfur höfum vér með oss til að kaupa vistir. Eigi vitum vér, hver látið hefir peningana í sekki vora."

23 Hann svaraði: "Verið ókvíðnir, óttist ekki! Yðar Guð og Guð föður yðar hefir gefið yður fjársjóð í sekki yðar. Silfur yðar er komið til mín." Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra.

24 Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður.

25 Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar.

26 Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum.

27 En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: "Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?"

28 Þeir svöruðu: "Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi." Og þeir hneigðu sig og lutu honum.

29 Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: "Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?" Og hann sagði: "Guð sé þér náðugur, son minn!"

30 Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar.

31 Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: "Berið á borð!"

32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því.

33 Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan.

34 Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.

Matteusarguðspjall 13:47-14:12

47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.

48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.

49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum

50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.

52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."

53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.

54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: "Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?

55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?

56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?"

57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum."

58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.

14 Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú.

Og hann segir við sveina sína: "Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."

En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns,

því Jóhannes hafði sagt við hann: "Þú mátt ekki eiga hana."

Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann.

En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo,

að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.

Að undirlagi móður sinnar segir hún: "Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara."

Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta.

10 Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar.

11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni.

12 Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.

Sálmarnir 18:16-36

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.

30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?

33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,

34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,

35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

Orðskviðirnir 4:7-10

Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!

Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.

Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."

10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society