Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Chronological

Read the Bible in the chronological order in which its stories and events occurred.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 17:11-18:14

11 Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu.

12 Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar,

13 hófu upp raust sína og kölluðu: "Jesús, meistari, miskunna þú oss!"

14 Er hann leit þá, sagði hann við þá: "Farið og sýnið yður prestunum." Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir.

15 En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu.

16 Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji.

17 Jesús sagði: "Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu?

18 Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?"

19 Síðan mælti Jesús við hann: "Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér."

20 Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri.

21 Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."

22 Og hann sagði við lærisveinana: "Þeir dagar munu koma, að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá.

23 Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því.

24 Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum.

25 En fyrst á hann margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð.

26 Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins:

27 Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum.

28 Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu.

29 En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum.

30 Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.

31 Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur.

32 Minnist konu Lots.

33 Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf.

34 Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.

35 Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [

36 Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]"

37 Þeir spurðu hann þá: "Hvar, herra?" En hann sagði við þá: "Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."

18 Þá sagði hann þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast:

"Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann.

Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.`

Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann.

En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu."`

Og Drottinn mælti: "Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir.

Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim?

Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?"

Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra:

10 "Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.

12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.`

13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!`

14 Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society