Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 78

78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.

Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.

Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,

það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.

Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,

til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,

og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,

og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr.

Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum.

10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans.

11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.

12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði.

13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg.

14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini.

15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,

16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót.

17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.

18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust

19 og töluðu gegn Guði og sögðu: "Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?

20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?"

21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael,

22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans.

23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins,

24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn;

25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar.

26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.

27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,

28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn.

29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann.

30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra,

31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels.

32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans.

33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu.

34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði

35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.

36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum.

37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.

38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni.

39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.

40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum.

41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.

42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,

43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði.

44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.

45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim.

46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra.

47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti.

48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra.

49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar.

50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.

51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.

52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.

53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið.

54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.

55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.

56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans.

57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi.

58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.

59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael.

60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,

61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína.

62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni.

63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.

64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.

65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.

66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung.

67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,

68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar.

69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.

70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum.

71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína.

72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.

Fimmta bók Móse 8:11-20

11 Gæt þín, að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum og haldir svo eigi boðorð hans, ákvæði og lög, sem ég legg fyrir þig í dag.

12 Lát eigi, þegar þú hefir etið og ert mettur orðinn og hefir reist fögur hús og býr í þeim,

13 þegar nautgripum þínum og sauðfénaði þínum fjölgar, þegar silfur þitt og gull eykst og allt sem þú átt,

14 lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu,

15 sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum,

16 hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir.

17 Og seg þú ekki í hjarta þínu: "Minn eigin kraftur og styrkur handar minnar hefir aflað mér þessara auðæfa."

18 Minnstu heldur Drottins Guðs þíns, því að hann er sá, sem veitir þér kraft til að afla auðæfanna, til þess að hann fái haldið þann sáttmála, er hann sór feðrum þínum, eins og líka fram hefir komið til þessa.

19 En ef þú gleymir Drottni Guði þínum og eltir aðra guði, dýrkar þá og fellur fram fyrir þeim, þá votta ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast.

20 Eins og þjóðirnar, er Drottinn eyðir fyrir yður, svo munuð þér og farast, af því að þér hlýdduð ekki röddu Drottins Guðs yðar.

Hið almenna bréf Jakobs 1:16-27

16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!

17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.

18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.

20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.

21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.

22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.

23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.

24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.

25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.

26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.

27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.

Lúkasarguðspjall 11:1-13

11 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

gef oss hvern dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni."

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,

því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.`

Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,

12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society