Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

38 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum?

Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.

Hver ákvað mál hennar _ þú veist það! _ eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?

Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,

þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?

Og hver byrgði hafið inni með hurðum, þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði,

þá er ég fékk því skýin að klæðnaði og svartaþykknið að reifum?

10 þá er ég braut því takmörk og setti slagbranda fyrir og hurðir

11 og mælti: "Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!"

12 Hefir þú nokkurn tíma á ævi þinni boðið út morgninum, vísað morgunroðanum á stað hans,

13 til þess að hann gripi í jaðar jarðarinnar og hinir óguðlegu yrðu hristir af henni?

14 Hún breytist eins og leir undir signeti, og allt kemur fram eins og á klæði.

15 Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn.

16 Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins?

17 Hafa hlið dauðans opnast fyrir þér og hefir þú séð hlið svartamyrkursins?

18 Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar? Seg fram, fyrst þú veist það allt saman.

19 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr, og myrkrið _ hvar á það heima,

20 svo að þú gætir flutt það heim í landareign þess og þekktir göturnar heim að húsi þess?

21 Þú veist það, því að þá fæddist þú, og tala daga þinna er há!

22 Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins,

23 sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins?

24 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið skiptist og austanvindurinn dreifist yfir jörðina?

25 Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið og veg fyrir eldingarnar

26 til þess að láta rigna yfir mannautt land, yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr,

27 til þess að metta auðnir og eyðilönd og láta grængresi spretta?

28 Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana?

29 Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, og hrím himinsins _ hver fæddi það?

30 Vötnin þéttast eins og steinn, og yfirborð fljótsins verður samfrosta.

31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin eða fær þú leyst fjötra Óríons?

32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma og leiðir þú Birnuna með húnum hennar?

33 Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni?

34 Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig?

35 Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari og segi við þig: "Hér erum vér!"

36 Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit?

37 Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins _ hver hellir úr þeim,

38 þegar moldin rennur saman í kökk og hnausarnir loða hver við annan?

39 Veiðir þú bráðina fyrir ljónynjuna, og seður þú græðgi ungljónanna,

40 þá er þau kúra í bæli sínu og vaka yfir veiði í þéttum runni?

41 Hver býr hrafninum fæðu hans, þá er ungar hans hrópa til Guðs, flögra til og frá ætislausir?

39 Veist þú tímann, nær steingeiturnar bera? Gefur þú gaum að fæðingarhríðum hindanna?

Telur þú mánuðina, sem þær ganga með, og veist þú tímann, nær þær bera?

Þær leggjast á knén, fæða kálfa sína, þær losna fljótt við kvalir sínar.

Kálfar þeirra verða sterkir, vaxa í haganum, fara burt og koma ekki aftur til þeirra.

Hver hefir látið skógarasnann ganga lausan og hver hefir leyst fjötra villiasnans,

sem ég hefi gefið eyðivelli að bústað og saltsléttu að heimkynni?

Hann hlær að hávaða borgarinnar, hann heyrir ekki köll rekstrarmannsins.

Það sem hann leitar uppi á fjöllunum, er haglendi hans, og öllu því sem grænt er, sækist hann eftir.

Mun vísundurinn vera fús til að þjóna þér eða mun hann standa um nætur við stall þinn?

10 Getur þú bundið vísundinn með bandinu við plógfarið eða mun hann herfa dalgrundirnar á eftir þér?

11 Reiðir þú þig á hann, af því að kraftur hans er mikill, og trúir þú honum fyrir arði þínum?

12 Treystir þú honum til að flytja sáð þitt heim og til að safna því á þreskivöll þinn?

13 Strúthænan baðar glaðlega vængjunum, en er nokkurt ástríki í þeim vængjum og flugfjöðrum?

14 Nei, hún fær jörðinni egg sín og lætur þau hitna í moldinni

15 og gleymir, að fótur getur brotið þau og dýr merkurinnar troðið þau sundur.

16 Hún er hörð við unga sína, eins og hún ætti þá ekki, þótt fyrirhöfn hennar sé árangurslaus, þá er hún laus við ótta,

17 því að Guð synjaði henni um visku og veitti henni enga hlutdeild í hyggindum.

18 En þegar hún sveiflar sér í loft upp, þá hlær hún að hestinum og þeim sem á honum situr.

19 Gefur þú hestinum styrkleika, klæðir þú makka hans flaksandi faxi?

20 Lætur þú hann stökkva eins og engisprettu? Fagurlega frýsar hann, en hræðilega!

21 Hann krafsar upp grundina og kætist af styrkleikanum, hann fer út á móti hertygjunum.

22 Hann hlær að hræðslunni og skelfist ekki og hopar ekki fyrir sverðinu.

23 Á baki hans glamrar í örvamælinum, spjót og lensa leiftra.

24 Með hávaða og harki hendist hann yfir jörðina og eigi verður honum haldið, þá er lúðurinn gellur.

25 Í hvert sinn er lúðurinn gellur, hvíar hann, og langar leiðir nasar hann bardagann, þrumurödd fyrirliðanna og herópið.

26 Er það fyrir þín hyggindi að haukurinn lyftir flugfjöðrunum, breiðir út vængi sína í suðurátt?

27 Er það eftir þinni skipun að örninn flýgur svo hátt og byggir hreiður sitt hátt uppi?

28 Á klettunum á hann sér býli og ból, á klettasnösum og fjallatindum.

29 Þaðan skyggnist hann að æti, augu hans sjá langar leiðir.

30 Og ungar hans svelgja blóð, og hvar sem vegnir menn liggja, þar er hann.

40 Og Drottinn mælti til Jobs og sagði:

Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka? Sá er sakir ber á Guð, svari hann þessu!

Þá svaraði Job Drottni og sagði:

Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn.

Einu sinni hefi ég talað, og endurtek það eigi, _ tvisvar, og gjöri það ekki oftar.

Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

Gyrð lendar þínar eins og maður. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu, dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur?

Hefir þú þá armlegg eins og Guð, og getur þú þrumað með slíkri rödd sem hann?

10 Skrýð þig vegsemd og tign, íklæð þig dýrð og ljóma!

11 Lát úthellast strauma reiði þinnar og varpa til jarðar með einu tilliti sérhverjum dramblátum.

12 Auðmýk þú sérhvern dramblátan með einu tilliti, og troð þú hina óguðlegu niður þar sem þeir standa.

13 Byrg þú þá í moldu alla saman, loka andlit þeirra inni í myrkri,

14 þá skal ég líka lofa þig, fyrir það að hægri hönd þín veitir þér fulltingi.

15 Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig, hann etur gras eins og naut.

16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans og afl hans í kviðvöðvunum.

17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré, lærsinar hans eru ofnar saman.

18 Leggir hans eru eirpípur, beinin eins og járnstafur.

19 Hann er frumgróði Guðs verka, sá er skóp hann, gaf honum sverð hans.

20 Fjöllin láta honum grasbeit í té, og þar leika sér dýr merkurinnar.

21 Hann liggur undir lótusrunnum í skjóli við reyr og sef.

22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann, lækjarpílviðirnir lykja um hann.

23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki, hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans.

24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum, getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?

16 Hann kom til Derbe og Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt, en faðir hans var grískur.

Bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð.

Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga, er voru í þeim byggðum, því að allir vissu þeir, að faðir hans var grískur.

Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær.

En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.

Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.

Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi.

Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: "Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!"

10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis

12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga.

13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar.

14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.

15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: "Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin." Þessu fylgdi hún fast fram.

16 Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá.

17 Hún elti Pál og oss og hrópaði: "Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!"

18 Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: "Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni." Og hann fór út á samri stundu.

19 Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina.

20 Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: "Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar

21 og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja."

Read full chapter