Add parallel Print Page Options

Þegar Salómon hafði lokið bæn sinni, kom eldur af himni og eyddi brennifórninni og sláturfórninni, og dýrð Drottins fyllti húsið.

Og prestarnir máttu eigi inn ganga í musteri Drottins, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins.

Og er allir Ísraelsmenn sáu, að eldinum laust niður og að dýrð Drottins steig niður yfir húsið, þá hneigðu þeir ásjónur sínar til jarðar, niður á steingólfið, lutu og lofuðu Drottin: "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu."

Þá fórnaði konungur og allur lýðurinn sláturfórnum frammi fyrir Drottni.

Salómon konungur fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn. Þannig vígði konungur og allur lýðurinn musteri Guðs.

En prestarnir stóðu á sínum stað, og sömuleiðis levítarnir með hljóðfæri Drottins, þau er Davíð konungur hafði gjöra látið til þess að þakka Drottni: "Því að miskunn hans varir að eilífu," og þeir léku lofsöng Davíðs, en andspænis þeim þeyttu prestarnir lúðra, en allur Ísrael stóð.

Og Salómon vígði miðhluta forgarðsins, er liggur frammi fyrir musteri Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórnum og hinum feitu stykkjum heillafórnanna. Því að eiraltarið, það er Salómon hafði gjöra látið, gat eigi tekið brennifórnirnar og matfórnirnar og feitu stykkin.

Þannig hélt Salómon þá hátíðina í sjö daga og allur Ísrael með honum _ afar mikill söfnuður, þaðan frá er leið liggur til Hamat, allt til Egyptalandsár.

Og áttunda daginn héldu þeir hátíðasamkomu, því að sjö daga voru þeir að vígja altarið, og hátíðina héldu þeir í sjö daga.

10 En á tuttugasta og þriðja degi hins sjöunda mánaðar lét hann lýðinn fara heim til sín, glaðan og í góðu skapi yfir þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð og Salómon og lýð sínum Ísrael.

11 Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og hafði fengið farsællega framgengt öllu því, er honum bjó í huga að gjöra í húsi Drottins og í höll sinni,

12 þá vitraðist Drottinn honum á náttarþeli og sagði við hann: "Ég hefi heyrt bæn þína og útvalið mér þennan stað að fórnahúsi.

13 Þegar ég byrgi himininn, svo að eigi nær að rigna, og þegar ég býð engisprettum að rótnaga landið, og þegar ég læt drepsótt koma meðal lýðs míns,

14 og lýður minn, sá er við mig er kenndur, auðmýkir sig, og þeir biðja og leita auglitis míns og snúa sér frá sínum vondu vegum, þá vil ég heyra þá frá himnum, fyrirgefa þeim syndir þeirra og græða upp land þeirra.

15 Skulu augu mín vera opin og eyru mín gaumgæfin gagnvart bæn þeirri, er fram er borin á þessum stað.

16 Og nú hefi ég útvalið og helgað þetta hús, til þess að nafn mitt megi búa þar að eilífu, og skulu augu mín og hjarta vera þar alla daga.

17 Og ef þú gengur fyrir augliti mínu, svo sem gjörði Davíð faðir þinn, með því að fara með öllu svo sem ég hefi þér um boðið, og þú heldur ákvæði mín og lög,

18 þá mun ég staðfesta hásæti konungdóms þíns, eins og ég hátíðlega hét Davíð föður þínum, þá er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann til þess að ríkja yfir Ísrael.`

19 En ef þér snúið baki við mér og fyrirlátið ákvæði mín og skipanir, er ég hefi fyrir yður lagt, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim,

20 þá mun ég útrýma þeim úr landi mínu, því er ég gaf þeim, og húsi þessu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu og gjöra það að orðskvið og spotti meðal allra þjóða.

21 Og þetta hús, svo háreist sem það er _ hverjum sem gengur fram hjá því, mun blöskra. Og ef hann þá spyr: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?`

22 munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leiddi þá út af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir hann leitt yfir þá alla þessa ógæfu."`

Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði byggt musteri Drottins og höll sína _

en borgirnar, er Húram hafði látið af hendi við Salómon, þær víggirti Salómon og lét Ísraelsmenn setjast þar að _

þá hélt Salómon til Hamat hjá Sóba og náði henni á sitt vald.

Og hann víggirti Tadmor í eyðimörkinni og allar vistaborgirnar, þær er hann byggði í Hamat.

Þá víggirti hann og Efri Bethóron og Neðri Bethóron og gjörði að köstulum með múrum, hliðum og slagbröndum,

enn fremur Baalat og allar vistaborgirnar, er Salómon átti, og allar vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar og allt, sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu.

Allt það fólk, sem eftir var af Hetítum, Amorítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, er eigi heyrðu til Ísraelsmönnum,

niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu útrýmt, á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag.

En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum til þess að vinna að fyrirtækjum sínum, en þeir voru hermenn, foringjar fyrir vagnköppum hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði.

10 Æðstu fógetar Salómons konungs voru tvö hundruð og fimmtíu að tölu. Þeir höfðu eftirlit með mönnum.

11 Og dóttur Faraós færði Salómon frá Davíðsborg í hús það, er hann hafði byggt handa henni, því að hann sagði: "Eigi skal ég láta konu búa í höll Davíðs Ísraelskonungs, því að helgir eru þeir staðir, þangað sem örk Drottins hefir komið."

12 Þá færði Salómon Drottni brennifórnir á altari Drottins, því er hann hafði reist fyrir framan forsalinn,

13 svo að hann færði fórnir eins og við átti á degi hverjum samkvæmt skipunum Móse, á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, þrisvar á ári _ á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni.

14 Og eftir fyrirmælum Davíðs föður síns setti hann prestaflokkana til þjónustu þeirra og levítana til starfs þeirra, að syngja lofsöngva og vera prestunum til aðstoðar, svo sem við átti á degi hverjum, og hliðverðina setti hann við sérhvert hlið, eftir flokkaskipun þeirra, því að svo hafði guðsmaðurinn Davíð um boðið.

15 Var hvergi brugðið af skipun konungs um prestana og levítana og féhirslurnar.

16 Var þannig lokið við öll störf Salómons, frá þeim degi, er grundvöllurinn var lagður að musteri Drottins, og þangað til Salómon lauk við musteri Drottins.

17 Þá fór Salómon til Esjón Geber og til Elót á strönd hafsins í Edómlandi.

18 En Húram sendi honum með mönnum sínum skip og menn, vana sjóferðum. Og þeir komust til Ófír ásamt mönnum Salómons og sóttu þangað fjögur hundruð og fimmtíu talentur gulls og færðu Salómon konungi.

Þá er drottningin í Saba spurði orðstír Salómons, kom hún til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti og með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum, til þess að reyna Salómon með gátum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti.

En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn Salómon, er hann gæti eigi leyst úr fyrir hana.

Og er drottningin frá Saba sá speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið,

matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og klæði þeirra og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin

og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína.

En ég trúði ekki orðum þeirra fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn um gnótt speki þinnar. Þú ert meiri orðróm þeim, er ég hefi heyrt.

Sælir eru menn þínir og sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína.

Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti sitt sem konung Drottins, Guðs þíns. Af því að Guð þinn elskar Ísrael, svo að hann vill láta hann standa að eilífu, gjörði hann þig að konungi yfir þeim til þess að iðka rétt og réttvísi."

Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan verið annað eins af kryddjurtum og drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.

10 Sömuleiðis komu og þjónar Húrams og þjónar Salómons, þeir er gull sóttu til Ófír, með sandelvið og gimsteina.

11 Og konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og í konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hafði ei áður slíkt sést í Júdalandi.

12 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess, er hún hafði fært konungi. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.

13 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd,

14 auk þess er kom inn frá varningsmönnum og þess er kaupmennirnir komu með. Auk þess færðu allir konungar Arabíu og jarlar landsins Salómon gull og silfur.

15 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli, fóru sex hundruð siklar af slegnu gulli í hvern skjöld,

16 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjú hundruð siklar gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.

17 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli.

18 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og fótskör úr gulli var fest á hásætið. Bríkur voru báðum megin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar.

19 Og tólf ljón stóðu á þrepunum sex, báðum megin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.

20 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.

21 Því að konungur hafði skip, er fóru til Tarsis með mönnum Húrams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim, hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.

22 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.

23 Og alla konunga jarðarinnar fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.

24 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði, vopn og kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár.

25 Og Salómon átti fjögur þúsund vagneyki og vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.

26 Og hann drottnaði yfir öllum konungum frá Efrat allt til Filistalands og til landamæra Egyptalands.

27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.

28 Og menn fluttu hesta úr Egyptalandi og úr öllum löndum handa Salómon.

29 Annað af sögu Salómons er frá upphafi til enda skráð í Sögu Natans spámanns og í Spádómi Ahía frá Síló og í Vitrun Íddós sjáanda um Jeróbóam Nebatsson.

30 Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár.

31 Og hann lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.

11 Maður sá var sjúkur, er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar.

En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur.

Nú gjörðu systurnar Jesú orðsending: "Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur."

Þegar hann heyrði það, mælti hann: "Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna."

Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus.

Þegar hann frétti, að hann væri veikur, var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga.

Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: "Förum aftur til Júdeu."

Lærisveinarnir sögðu við hann: "Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?"

Jesús svaraði: "Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims.

10 En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér."

11 Þetta mælti hann, og sagði síðan við þá: "Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann."

12 Þá sögðu lærisveinar hans: "Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum."

13 En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar, að hann ætti við venjulegan svefn.

14 Þá sagði Jesús þeim berum orðum: "Lasarus er dáinn,

15 og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans."

16 Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: "Vér skulum fara líka til að deyja með honum."

17 Þegar Jesús kom, varð hann þess vís, að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni.

18 Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan.

19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.

20 Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima.

21 Marta sagði við Jesú: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.

22 En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um."

23 Jesús segir við hana: "Bróðir þinn mun upp rísa."

24 Marta segir: "Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi."

25 Jesús mælti: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

26 Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?"

27 Hún segir við hann: "Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn."

28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði í hljóði: "Meistarinn er hér og vill finna þig."

29 Þegar María heyrði þetta, reis hún skjótt á fætur og fór til hans.

Read full chapter