Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.
17 Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land.
18 Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana?
19 Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið.
20 Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið.
21 Nei, hinn máttki, Drottinn, er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið.
22 Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur, hann mun frelsa oss.
6 Og hann sagði við mig: "Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms.
7 Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar."
18 Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók.
19 Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.
20 Sá sem þetta vottar segir: "Já, ég kem skjótt." Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!
by Icelandic Bible Society