Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.
12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.
13 Þá mælti Guð við Nóa: "Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.
14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan.
15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir.
16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst.
17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.
18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér.
19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera:
20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi.
21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis."
22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.
24 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.
2 Hann sagði við þá: "Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
3 Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?"
4 Jesús svaraði þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.
5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu.
6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.
7 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.
8 Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.
10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata.
11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.
12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.
13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.
15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _
16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.
17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.
18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.
19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.
20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.
21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.
22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.
by Icelandic Bible Society