Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
10 Á tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar, talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið:
11 Svo segir Drottinn allsherjar: Leitaðu fræðslu prestanna um þetta:
12 "Setjum, að maður beri heilagt kjöt í kyrtilskauti sínu og snerti síðan brauð, einhvern rétt matar, vín, olíu eða eitthvað annað matarkyns með kyrtilskauti sínu, verður það þá heilagt af því?" Prestarnir svöruðu og sögðu: "Nei!"
13 Þá spurði Haggaí: "Ef maður, sem orðinn er óhreinn, af því að hann hefir snortið lík, kemur við eitthvað af þessu, verður það þá óhreint?" Prestarnir svöruðu og sögðu: "Já, það verður óhreint."
14 Þá tók Haggaí til máls og sagði: "Eins er um þennan lýð og þessa þjóð í mínum augum _ segir Drottinn _ svo og um allt verk er þeir vinna, og það sem þeir færa mér þar að fórn, það er óhreint.
15 Og rennið nú huganum frá þessum degi aftur í tímann, áður en steinn var lagður á stein ofan í musteri Drottins.
16 Hvernig leið yður þá? Kæmi maður að kornbing, sem gjöra skyldi tuttugu skeppur, þá urðu þær tíu. Kæmi maður að vínþröng og ætlaði að ausa fimmtíu könnur úr þrónni, þá urðu þar ekki nema tuttugu.
17 Ég hefi refsað yður með korndrepi og gulnan og hagli yfir öll handaverk yðar, og þó snúið þér yður ekki til mín! _ segir Drottinn.
18 Rennið nú huganum frá þessum degi lengra aftur í tímann, frá hinum tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, frá þeim degi er lagður var grundvöllur að musteri Drottins. Rennið huganum yfir,
19 hvort enn sé korn í forðabúrinu og hvort víntrén og fíkjutrén og granateplatrén og olíutrén beri ekki enn ávöxt. Frá þessum degi vil ég blessun gefa!"
16 Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans.
17 Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."
18 Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.
19 Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.
20 Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér.
21 Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.
by Icelandic Bible Society