Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66:1-12

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

Jeremía 25:1-14

25 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda _ það var fyrsta ríkisár Nebúkadresars Babelkonungs _,

orðið, sem Jeremía spámaður talað til alls Júdalýðs og til allra Jerúsalembúa:

Frá þrettánda ríkisári Jósía Amónssonar, Júdakonungs, og fram á þennan dag, nú í tuttugu og þrjú ár, hefir orð Drottins komið til mín og ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt.

Og Drottinn hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt, né heldur lagt við eyrun til þess að heyra.

Hann sagði: "Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.

En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera."

En þér hlýdduð ekki á mig _ segir Drottinn _ heldur egnduð mig til reiði með handaverkum yðar, yður sjálfum til ills.

Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum,

þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins _ segir Drottinn _ og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung,

10 og ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós.

11 Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn, og þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár.

12 En þegar sjötíu ár eru liðin, mun ég refsa Babelkonungi og þessari þjóð _ segir Drottinn _ fyrir misgjörð þeirra, og gjöra land Kaldea að eilífri auðn.

13 Og ég mun láta fram koma á þessu landi öll þau hótunarorð, er ég hefi talað gegn því, allt það sem ritað er í þessari bók, það sem Jeremía hefir spáð um allar þjóðir.

14 Því að voldugar þjóðir og miklir konungar munu og gjöra þá að þrælum, og ég mun gjalda þeim eftir athæfi þeirra og eftir handaverkum þeirra.

Síðara bréf Páls til Tímó 1:13-18

13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.

14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.

15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.

16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn,

17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig.

18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society