Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
18 Ó hvað má hugsvala mér í harminum! Hjartað er sjúkt í mér.
19 Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi. Er Drottinn ekki í Síon, eða er konungur hennar ekki í henni? "Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?"
20 Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp.
21 Ég er helsærður af helsári þjóðar minnar, ég geng í sorgarbúningi, skelfing hefir gripið mig.
22 Eru þá engin smyrsl í Gíleað, eða er þar enginn læknir? Hví er engin hyldgan komin á sár þjóðar minnar?
9 Ó að höfuð mitt væri vatn og augu mín táralind, þá skyldi ég gráta daga og nætur þá, er fallið hafa af þjóð minni.
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
2 Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum,
2 fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.
3 Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði,
4 sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
5 Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús,
6 sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma.
7 Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, _ ég tala sannleika, lýg ekki _, kennari heiðingja í trú og sannleika.
16 Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.
2 Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.`
3 Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla.
4 Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.`
5 Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?`
6 Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.` Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.`
7 Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?` Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.` Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.`
8 Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.
9 Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.
10 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.
11 Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði?
12 Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?
13 Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."
by Icelandic Bible Society