Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 94

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

Jeremía 5:18-31

18 En á þeim dögum _ segir Drottinn _ mun ég samt ekki gjöra aleyðing á yður.

19 En ef þér þá segið: "Fyrir hvað gjörir Drottinn, Guð vor, oss allt þetta?" þá skalt þú segja við þá: "Eins og þér hafið yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum í yðar landi, svo skuluð þér verða annarra þrælar í landi, sem ekki er yðar land."

20 Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda:

21 Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki!

22 Mig viljið þér ekki óttast _ segir Drottinn _ eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana.

23 En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt,

24 en sögðu ekki í hjarta sínu: "Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum."

25 Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður.

26 Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn.

27 Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir.

28 Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna.

29 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

30 Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu!

31 Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?

Síðara almenna bréf Péturs 3:8-13

En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.

Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.

10 En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.

11 Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni,

12 þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.

13 En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society