Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
12 En þeir munu segja: "Það er til einskis! Vér förum eftir vorum hugsunum og breytum hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta."
13 Svo segir Drottinn: Spyrjið meðal þjóðanna: Hefir nokkur heyrt slíkt? Mjög hryllilega hluti hefir mærin Ísrael í frammi haft.
14 Hvort hverfur snjór Líbanons af gnæfandi klettinum? Eða þrýtur uppvellandi vatnið, hið svala og niðandi?
15 Þjóð mín hefir gleymt mér. Fánýtum goðunum færa þeir reykelsisfórnir, og þeir hafa leitt þá í hrösun á vegum þeirra, gömlu götunum, svo að þeir ganga stigu, ólagðan veg.
16 Þeir gjöra land sitt að skelfingu, að eilífu háði, svo að hver sá, er þar fer um, skelfist og hristir höfuðið.
17 Eins og fyrir austanvindi mun ég tvístra þeim fyrir óvinunum, ég mun sýna þeim bakið, en ekki andlitið á þeirra glötunardegi.
18 Þeir sögðu: "Komið, bruggum ráð gegn Jeremía, því að eigi mun prestana skorta kenning, spekingana ráð, né spámennina opinberun. Komið, vér skulum drepa hann með tungunni og engan gaum gefa orðum hans."
19 Gef mér gaum, Drottinn, og heyr tal andstæðinga minna.
20 Á að launa gott með illu, þar sem þeir hafa grafið mér gröf? Minnstu þess, hversu ég hefi staðið frammi fyrir þér til þess að tala máli þeirra, til þess að snúa þinni heiftarreiði frá þeim.
21 Ofursel því sonu þeirra hungrinu og fá þá sverðinu á vald, svo að konur þeirra verði barnlausar og ekkjur, og menn þeirra farist af drepsótt og æskumenn þeirra falli fyrir sverði í bardaga.
22 Lát neyðarkvein heyrast úr húsum þeirra, þegar þú lætur morðflokka skyndilega yfir þá koma, því að þeir hafa grafið gröf til að veiða mig í, og lagt snörur fyrir fætur mína.
23 En þú, Drottinn, þekkir öll fjörráð þeirra gegn mér. Fyrirgef eigi misgjörð þeirra og afmá ekki synd þeirra fyrir augliti þínu. Lát þá steypast fyrir þér, framkvæm það á þeim, þegar reiði þín brýst út.
14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,
15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.
16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.
4 Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.
2 Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.
3 Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.
4 Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.
5 Það helgast af orði Guðs og bæn.
by Icelandic Bible Society