Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.
2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.
4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.
11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.
23 Hvernig getur þú sagt: "Ég hefi ekki saurgað mig, ég hefi ekki elt Baalana"? Hygg að athæfi þínu í dalnum, sjá, hvað þú hefir gjört, léttfætta úlfaldahryssa, sem hleypur til og frá.
24 Eins og villiasna, sem vön er eyðimörkinni, stendur hún á öndinni í girndarbruna sínum, _ hver fær aftrað losta hennar? Þeir sem hennar leita, þurfa engir að þreyta sig, þeir finna hana í mánuði hennar.
25 Varðveit þú fót þinn, svo að skórinn fari ekki af honum, og háls þinn, svo að hann verði ekki þurr! En þú segir: "Það er til einskis! Nei! Ég elska hina útlendu og þá vil ég elta!"
26 Eins og þjófurinn má skammast sín, þegar hann er staðinn að verkinu, svo má Ísraels hús skammast sín: Þeir, konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra,
27 segja við trédrumb: "Þú ert faðir minn!" og við stein: "Þú hefir fætt mig!" Þeir hafa snúið við mér bakinu, en ekki andlitinu, en þegar þeir eru í nauðum staddir, þá hrópa þeir: "Rís upp og hjálpa oss!"
28 En hvar eru guðir þínir, sem þú hefir gjört þér? Þeir verða að rísa upp, ef þeir geta hjálpað þér, þegar þú ert í nauðum staddur! Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar.
29 Hví þráttið þér við mig? Þér hafið allir rofið trúnað við mig _ segir Drottinn.
30 Til einskis hefi ég slegið sonu yðar, aga þýddust þér ekki, sverð yðar tortímdi spámönnum yðar, eins og eyðandi ljón.
31 Þú kynslóð, gef gaum orði Drottins! Hefi ég verið eyðimörk fyrir Ísrael eða niðdimmt land? Hví segir þá þjóð mín: "Vér erum lausir, vér munum ekki koma aftur til þín!"
32 Mun mær gleyma skarti sínu, brúður belti sínu? Og þó hefir þjóð mín gleymt mér afar langan tíma.
33 Hversu haganlega fer þú að ráði þínu, til þess að leita þér ástar! Til þess hefir þú jafnvel vanið þig á glæpa-atferli.
34 Jafnvel á faldi klæða þinna sést blóð saklausra aumingja. Þú stóðst þá eigi að innbroti.
35 Þrátt fyrir allt þetta segir þú: "Ég er saklaus, vissulega hefir reiði hans snúist frá mér." Sjá, nú dreg ég þig fyrir dóm, af því að þú segir: "Ég hefi ekki syndgað."
36 Hví flýtir þú þér svo mjög burt til þess að halda aðra leið? Vonir þínar um Egyptaland munu og bregðast, eins og vonir þínar um Assýríu brugðust.
37 Einnig þaðan munt þú koma, sláandi höndum saman yfir höfði þér, því að Drottinn hefir hafnað þeim, er þú treystir á, og þér mun ekkert lánast með þá.
7 Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.
8 Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.
9 Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.
10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því.
11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar.
12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.
13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.
14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.
15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.
16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.
17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.
18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.
19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.
20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,
21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.
by Icelandic Bible Society