Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
18 Á þeim degi mun Drottinn burt nema skart þeirra: ökklaspennurnar, ennisböndin, hálstinglin,
19 eyrnaperlurnar, armhringana, andlitsskýlurnar,
20 motrana, ökklafestarnar, beltin, ilmbaukana, töfraþingin,
21 fingurgullin, nefhringana,
22 glitklæðin, nærklæðin, möttlana og pyngjurnar,
23 speglana, líndúkana, vefjarhettina og slæðurnar.
24 Koma mun ódaunn fyrir ilm, reiptagl fyrir belti, skalli fyrir hárfléttur, aðstrengdur hærusekkur í stað skrautskikkju, brennimerki í stað fegurðar.
25 Menn þínir munu fyrir sverði falla og kappar þínir í orustu.
26 Hlið borgarinnar munu kveina og harma, og hún sjálf mun sitja einmana á jörðinni.
4 Á þeim degi munu sjö konur þrífa í sama manninn og segja: "Vér skulum sjálfar fæða oss og klæða, lát þú oss aðeins nefnast eftir nafni þínu, nem burt smán vora."
2 Á þeim degi mun kvistur Drottins prýðilegur og veglegur verða, og ávöxtur landsins hár og fagur fyrir þá af Ísrael, sem undan komast.
3 Þeir sem af lifa í Síon og eftir verða í Jerúsalem, skulu kallast heilagir, allir þeir, sem skráðir eru meðal hinna lifandi í Jerúsalem.
4 Þá er Drottinn hefir afþvegið óhreinindi Síonardætra og hreinsað blóð Jerúsalemborgar af henni með refsidómsanda og hreinsunaranda,
5 mun hann skapa ský um daga og reyk og skínandi eldsloga um nætur yfir öllum helgidóminum á Síonarfjalli og samkomunum þar, því að yfir öllu því, sem dýrlegt er, skal verndarhlíf vera.
6 Og laufskáli skal vera þar til forsælu fyrir hitanum á daginn og til hælis og skýlis fyrir steypiregni og skúrum.
15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _
16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.
17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.
18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.
19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.
20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.
21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.
22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.
23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki.
24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.
25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.
26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki.
27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.
by Icelandic Bible Society