Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 100

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Esekíel 37:15-28

15 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: "Þú mannsson, tak þér staf og rita á hann:

16 ,Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.` Tak því næst annan staf og rita á hann: ,Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.`

17 Teng þá síðan hvorn við annan í einn staf, svo að þeir verði að einum í hendi þinni.

18 Og er samlandar þínir tala til þín og segja: ,Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða?`

19 þá seg þeim: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég tek staf Jósefs, sem er í hendi Efraíms og þeirra ættkvísla Ísraels, sem eru í bandalagi við hann, og gjöri þá að staf Júda, svo að þeir verði einn stafur í hendi Júda.

20 Og stafirnir, sem þú skrifar á, skulu vera í hendi þinni fyrir augum þeirra.

21 Og mæl til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna, þangað sem þeir fóru, og saman safna þeim úr öllum áttum og leiði þá aftur inn í land þeirra.

22 Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki.

23 Og þeir skulu eigi framar saurga sig á skurðgoðum sínum og viðurstyggðum, eða með öllum tryggðrofssyndum sínum, og ég vil frelsa þá frá öllum fráhvarfssyndum þeirra, sem þeir hafa drýgt, og hreinsa þá, og þeir skulu verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.

24 Og þjónn minn Davíð skal vera konungur yfir þeim, og þeir skulu allir hafa einn hirði og lifa eftir setningum mínum og varðveita boðorð mín og breyta eftir þeim.

25 Og þeir skulu búa í landinu, sem ég gaf þjóni mínum Jakob og feður yðar bjuggu í. Í því skulu þeir og búa og börn þeirra og barnabörn til eilífðar, og þjónn minn Davíð skal vera höfðingi þeirra eilíflega.

26 Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu.

27 Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.

28 Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega."

Opinberun Jóhannesar 15:1-4

15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.

Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.

Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society