Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
7 Þá er þeir konungur og Haman voru komnir til þess að drekka hjá Ester drottningu,
2 þá sagði konungur við Ester einnig þennan hinn annan dag, þá er þau voru setst að víndrykkjunni: "Hver er bón þín, Ester drottning? Hún mun veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."
3 Þá svaraði Ester drottning og sagði: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, konungur, og þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar.
4 Því að vér erum seldir, ég og þjóð mín, til eyðingar, deyðingar og tortímingar. Og ef vér hefðum aðeins verið seldir að þrælum og ambáttum, þá mundi ég hafa þagað, þótt mótstöðumaðurinn hefði eigi verið fær um að bæta konungi skaðann."
5 Þá mælti Ahasverus konungur og sagði við Ester drottningu: "Hver er sá og hvar er sá, er dirfðist að gjöra slíkt?"
6 Ester mælti: "Mótstöðumaðurinn og óvinurinn er þessi vondi Haman!" En Haman varð hræddur við konung og drottningu.
7 Og konungur stóð upp frá víndrykkjunni í reiði og gekk út í hallargarðinn, en Haman stóð eftir til þess að biðja Ester drottningu um líf sitt, því að hann sá sér ógæfu búna af konungi.
8 En þegar konungur kom aftur utan úr hallargarðinum inn í veislusalinn, þá hafði Haman látið fallast á hvílubekk þann, sem Ester sat á. Þá sagði konungur: "Mun hann einnig ætla að nauðga drottningunni hjá mér hér í höllinni?" Óðara en þessi orð voru komin út af vörum konungs, huldu menn auglit Hamans.
9 Og Harbóna, einn af geldingum þeim, er þjónuðu konungi, mælti: "Sjá, gálginn, sem Haman lét gjöra handa Mordekai, sem þó hafði talað það, er konungi varð til heilla, stendur búinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álna hár." Þá mælti konungur: "Festið hann á hann!"
10 Og þeir festu Haman á gálgann, sem hann hafði reisa látið handa Mordekai. Þá rann konungi reiðin.
9 Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.
10 Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli,
11 er sagði: "Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu."
12 Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur,
13 og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans.
14 Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi.
15 Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna.
16 Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum.
17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: "Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti
18 og hinn lifandi." Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.
19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta.
20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.
by Icelandic Bible Society