Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
4 Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið:
2 "Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri,
3 og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt."
4 Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri.
5 Og Jósúa sagði við þá: "Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna.
6 Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`
7 þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega."`
8 Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Jósúa bauð, og tóku tólf steina upp úr Jórdan miðri, eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna, og báru þá yfir um með sér, þangað er þeir höfðu náttstað, og settu þá þar niður.
9 Og Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag.
10 En prestarnir, sem örkina báru, stóðu í Jórdan miðri, uns öllu því var lokið, sem Drottinn hafði boðið Jósúa að segja lýðnum samkvæmt öllu því, sem Móse hafði boðið Jósúa. Og lýðurinn flýtti sér að fara yfir um.
11 Og er allur lýðurinn var kominn yfir um, þá fór og örk Drottins yfir um og prestarnir, sem fóru fyrir lýðnum.
12 Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse fóru hertygjaðir fyrir Ísraelsmönnum, eins og Móse hafði fyrir þá lagt.
13 Um fjörutíu þúsundir vígbúinna manna að tölu héldu þeir yfir á Jeríkóvöllu fyrir augliti Drottins til hernaðar.
16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.
17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.
18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.
5 Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.
2 Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum.
3 Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir.
4 En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu.
5 En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.
by Icelandic Bible Society