Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
11 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:
2 Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa
3 og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála,
4 er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði: "Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð,
5 til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag." Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn!
6 Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg: Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim.
7 Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: "Hlýðið skipun minni!"
8 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki.
9 Þá sagði Drottinn við mig: "Það er samsæri milli Júdamanna og Jerúsalembúa.
10 Þeir eru horfnir aftur til misgjörða forfeðra sinna, sem eigi vildu hlýða orðum mínum, og þeir elta aðra guði, til þess að þjóna þeim. Ísraels hús og Júda hús hafa rofið minn sáttmála, þann er ég gjörði við feður þeirra.
11 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá.
12 En fari Júdaborgir og Jerúsalembúar og hrópi til þeirra guða, er þeir færa reykelsisfórnir, þá munu þeir vissulega heldur ekki hjálpa þeim á ógæfutíma þeirra.
13 Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar, og þér hafið reist eins mörg ölturu, til þess að fórna Baal á reykelsisfórnum, eins og stræti eru í Jerúsalem.
14 En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra."
15 Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt. Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna?
16 Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna.
17 Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir.
2 Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.
2 Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja.
3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs?
4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?
5 Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber.
6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans:
7 Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika,
8 en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.
9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska.
10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski.
11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.
by Icelandic Bible Society