Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 99

99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.

Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.

Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!

Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.

Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!

Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.

Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.

Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.

Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.

Fimmta bók Móse 9:1-5

Heyr Ísrael! Þú fer nú í dag yfir Jórdan til þess að leggja undir þig þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þú ert, stórar borgir og víggirtar hátt í loft upp,

stórt og hávaxið fólk, Anakítana, sem þú þekkir og hefir sjálfur heyrt sagt um: "Hver fær staðist fyrir Anaks sonum?"

Vit það því nú, að það er Drottinn Guð þinn, er fyrir þér fer sem eyðandi eldur. Hann mun eyða þeim og leggja þær að velli fyrir augliti þínu, svo að þú skjótlega getir rekið þær burt og gjöreytt þeim, eins og Drottinn hefir heitið þér.

Þegar Drottinn Guð þinn hefir rekið þær á burt undan þér, þá mátt þú ekki segja í hjarta þínu: "Sökum míns eigin réttlætis hefir Drottinn leitt mig inn í þetta land og fengið mér það til eignar," þar eð það er vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn stökkvir þeim á burt undan þér.

Það er ekki vegna réttlætis þíns eða hreinskilni hjarta þíns, að þú fær land þeirra til eignar, heldur er það vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér, og til þess að halda það loforð, er Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.

Postulasagan 3:11-16

11 Hann hélt sér að Pétri og Jóhannesi, og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin, sem kennd eru við Salómon.

12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: "Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur?

13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan.

14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður.

15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar.

16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society