Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
15 Nú hafði Drottinn, daginn áður en Sál kom, opinberað Samúel þetta:
16 "Í þetta mund á morgun mun ég senda til þín mann úr Benjamínslandi, og skalt þú smyrja hann til höfðingja yfir lýð minn Ísrael, og hann mun frelsa minn lýð af hendi Filistanna, því að ég hefi séð ánauð míns lýðs, og kvein hans hefir borist til mín."
17 En er Samúel sá Sál, sagði Drottinn við hann: "Þetta er maðurinn, sem ég sagði um við þig: ,Hann skal drottna yfir mínum lýð."`
18 Sál gekk þá til Samúels í miðju borgarhliðinu og mælti: "Seg mér, hvar á sjáandinn heima?"
19 Samúel svaraði Sál og mælti: "Ég er sjáandinn. Gakk á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið skuluð eta með mér í dag, en á morgun snemma mun ég láta þig fara og fræða þig um allt það, er þú ber fyrir brjósti.
20 Og að því er snertir ösnurnar, sem töpuðust hjá þér fyrir þremur dögum, þá vertu ekki áhyggjufullur út af þeim, því að þær eru fundnar. En hver mun hljóta allar hnossir Ísraels, hver nema þú og öll ætt föður þíns?"
21 Sál svaraði og mælti: "Er ég ekki Benjamíníti, kominn af einni af hinum minnstu kynkvíslum Ísraels, og ætt mín hin lítilmótlegasta af öllum ættum Benjamíns kynkvíslar? Hví mælir þú þá slíkt við mig?"
22 Samúel tók Sál og svein hans og leiddi þá inn í matsalinn, og hann vísaði þeim til sætis efst meðal boðsmannanna, en þeir voru um þrjátíu manns.
23 Og Samúel sagði við matsveininn: "Kom þú nú með stykkið, sem ég fékk þér og sagði þér að taka frá."
24 Þá bar matsveinninn fram bóginn og rófuna og setti fyrir Sál. Og Samúel mælti: "Sjá, það sem afgangs varð, er nú sett fyrir þig. Et, því að á hinum ákveðna tíma var það geymt þér, þá er sagt var: Ég hefi boðið fólkinu!" Og Sál át með Samúel þann dag.
25 Og þeir gengu niður af hæðinni ofan í borgina, og var búið um Sál á þakinu, og lagðist hann til svefns.
26 Þegar lýsti af degi, kallaði Samúel á Sál uppi á þakinu og mælti: "Rís nú á fætur, svo að ég geti fylgt þér á leið." Þá reis Sál á fætur, og þeir gengu báðir út, hann og Samúel.
27 En er þeir voru komnir út fyrir borgina, sagði Samúel við Sál: "Segðu sveininum að fara á undan okkur, _ og hann fór á undan _ en statt þú kyrr, svo að ég megi flytja þér orð frá Guði."
10 Þá tók Samúel buðk með olífuolíu og hellti yfir höfuð honum og minntist við hann og mælti: "Nú hefir Drottinn smurt þig til höfðingja yfir lýð sinn Ísrael, og þú skalt drottna yfir lýð Drottins og þú skalt frelsa hann af hendi óvina hans. Og þetta skalt þú til marks hafa um, að Drottinn hefir smurt þig til höfðingja yfir arfleifð sína:
3 Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk.
2 Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari.
3 Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.
4 Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.
5 Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?
6 Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.
7 Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.
8 Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða.
9 Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.
by Icelandic Bible Society