Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.
2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?
6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.
9 Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.
10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.
11 Orð Drottins kom til mín: Hvað sér þú, Jeremía? Ég svaraði: Ég sé möndluviðargrein.
12 En Drottinn sagði við mig: Þú hefir séð rétt, því að ég vaki yfir orði mínu til þess að framkvæma það.
13 Þá kom orð Drottins til mín annað sinn: Hvað sér þú? Ég svaraði: Ég sé sjóðandi pott, og snýr hann framhliðinni að oss úr norðri.
14 Þá sagði Drottinn við mig: Úr norðri mun ógæfan koma sjóðandi yfir alla íbúa landsins.
15 Því sjá, ég kalla allar ættkvíslir ríkjanna í norðri _ Drottinn segir það _, til þess að þeir komi og reisi hver og einn upp hásæti sitt úti fyrir hliðum Jerúsalem og gegn öllum múrum hennar hringinn í kring og gegn öllum borgum í Júda.
16 Og ég mun kveða upp dóma mína yfir þeim, vegna allrar illsku þeirra, að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og fallið fram fyrir handaverkum sínum.
17 En gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, til þess að ég gjöri þig ekki hræddan frammi fyrir þeim.
18 Sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg og að járnsúlu og að eirveggjum gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum, gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum,
19 og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig _ Drottinn segir það.
41 Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni
42 og sagði: "Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.
43 Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.
44 Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma."
by Icelandic Bible Society