Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Daníel 2:24-49

24 Daníel fór nú til Arjóks, sem konungur hafði falið að lífláta vitringana í Babýlon. Hann fór og mælti til hans á þessa leið: "Ekki skalt þú lífláta vitringana í Babýlon. Leið mig inn fyrir konung, og mun ég segja konungi þýðinguna."

25 Síðan leiddi Arjók Daníel í skyndi inn fyrir konung og mælti svo til hans: "Ég hefi fundið mann meðal hinna herleiddu frá Júda, sem ætlar að segja konunginum þýðing draumsins."

26 Konungur svaraði og sagði við Daníel, sem kallaður var Beltsasar: "Getur þú sagt mér drauminn, sem mig dreymdi, og þýðing hans?"

27 Daníel svaraði konungi og sagði: "Leyndardóm þann, sem konungurinn spyr um, geta hvorki vitringar, særingamenn, spásagnamenn né stjörnuspekingar sagt konunginum.

28 En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum. Draumur þinn og vitranir þær, er fyrir þig bar í rekkju þinni, voru þessar:

29 Þá er þú hvíldir í rekkju þinni, konungur, stigu upp hugsanir hjá þér um, hvað verða mundi eftir þetta, og hann, sem opinberar leynda hluti, hefir kunngjört þér, hvað verða muni.

30 En hvað mig snertir, þá er það ekki fyrir nokkurrar visku sakir, sem ég hafi til að bera umfram alla menn aðra, þá er nú eru uppi, að þessi leyndardómur er mér opinber orðinn, heldur til þess að þýðingin yrði kunngjörð konunginum og þú fengir að vita hugsanir hjarta þíns.

31 Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og stóð þar líkneski mikið. Líkneski þetta var stórt og yfirtaks-ljómandi. Það stóð frammi fyrir þér og var ógurlegt ásýndum.

32 Höfuð líkneskis þessa var af skíru gulli, brjóstið og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri,

33 leggirnir af járni, fæturnir sums kostar af járni, sums kostar af leir.

34 Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá.

35 Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina.

36 Þetta er draumurinn, og nú viljum vér segja konunginum þýðing hans.

37 Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina,

38 þú, sem hann hefir mennina á vald selt, hvar svo sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins, og sett þig drottnara yfir því öllu, _ þú ert gullhöfuðið.

39 En eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er, og því næst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu.

40 Þá mun hefjast fjórða ríkið, sterkt sem járn, _ því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt _, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin.

41 En þar er þú sást fæturna og tærnar, að sumt var af pottaraleir, sumt af járni, það merkir að ríkið mun verða skipt. Þó mun það nokkru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn.

42 En þar er tærnar á fótunum voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkru leyti verða öflugt og að nokkru leyti veikt.

43 Og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum saman blandast, og þó ekki samþýðast hvorir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn.

44 En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu,

45 þar sem þú sást að steinn nokkur losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, og mölvaði járnið, eirinn, leirinn, silfrið og gullið. Mikill Guð hefir kunngjört konunginum hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg."

46 Þá féll Nebúkadnesar konungur fram á ásjónu sína og laut Daníel og bauð að fórna honum matfórn og reykelsi.

47 Konungur mælti til Daníels og sagði: "Í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta, með því að þú máttir þennan leyndardóm auglýsa."

48 Eftir það hóf konungur Daníel til mikilla mannvirðinga og gaf honum miklar og margar gjafir, setti hann höfðingja yfir allt Babel-hérað og gjörði hann að æðsta forstjóra yfir öllum vitringum í Babýlon.

49 Og fyrir tilmæli Daníels gjörði konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að sýslumönnum yfir Babel-héraði, en sjálfur var Daníel við hirð konungs.

Bréf Páls til Efesusmanna 5:15-20

15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.

16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.

17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.

18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,

19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,

20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society