Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
2 Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa.
2 Þá bauð konungur að kalla til sín spásagnamenn og særingamenn og galdramenn og Kaldea, að þeir segðu konungi, hvað hann hefði dreymt, og þeir komu og gengu fyrir konung.
3 Þá sagði konungur við þá: "Mig hefir dreymt draum og mér er órótt í skapi, uns ég fæ að vita drauminn."
4 Þá sögðu Kaldearnir við konunginn á arameísku: "Konungurinn lifi eilíflega! Seg þjónum þínum drauminn, og munum vér þá segja þýðing hans."
5 Konungur svaraði og sagði við Kaldea: "Ásetningur minn er óhagganlegur: Ef þér segið mér ekki drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir sundur og hús yðar gjörð að sorphaug.
6 En ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, munuð þér af mér þiggja margs konar gjafir og mikla sæmd. Segið mér því drauminn og þýðing hans!"
7 Þá svöruðu þeir aftur og sögðu: "Konungurinn segi þjónum sínum drauminn, og þá skulum vér segja, hvað hann þýðir."
8 Konungur svaraði og sagði: "Ég veit með vissu, að þér ætlið að leita yður frests, þar eð þér sjáið að ásetningur minn er óhagganlegur.
9 En ef þér segið mér ekki drauminn, þá bíður yðar dómur, sem ekki verður nema á einn veg. Þér hafið komið yður saman um að fara með lygatal og skaðsemdar frammi fyrir mér, þar til er tímarnir breytast. Segið mér því drauminn, svo að ég fái skilið, að þér megið einnig segja mér þýðing hans."
10 Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: "Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea.
11 Því að það er torvelt, sem konungurinn heimtar, og enginn getur kunngjört konunginum það nema guðirnir einir, en bústaður þeirra er ekki hjá dauðlegum mönnum."
12 Af þessu varð konungur gramur og mjög reiður og bauð að taka af lífi alla vitringa í Babýlon.
13 Gekk þá sú skipun út, að lífláta skyldi vitringana, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans til að lífláta þá.
14 Þá sneri Daníel sér með viturleik og skynsemd til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem út var genginn til þess að lífláta vitringana í Babýlon.
15 Hann tók til máls og sagði við Arjók valdsmann konungs: "Hví er skipun konungs svo hörð?" Arjók skýrði þá Daníel frá málavöxtum.
16 Og Daníel gekk upp til konungs og bað hann gefa sér frest, að hann mætti kunngjöra konungi þýðinguna.
17 Þá gekk Daníel heim til húss síns til þess að segja þeim Hananja, Mísael og Asarja, félögum sínum, frá þessu,
18 og til þess að biðja Guð himinsins líknar um leyndardóm þennan, svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki líflátnir með hinum vitringunum í Babýlon.
19 Þá var leyndardómurinn opinberaður Daníel í nætursýn. Þá lofaði Daníel Guð himnanna.
17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,
18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.
19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.
20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.
21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:
22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,
23 en endurnýjast í anda og hugsun og
24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.
25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.
26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.
27 Gefið djöflinum ekkert færi.
28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.
29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.
30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.
31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.
32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
5 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.
by Icelandic Bible Society