Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jobsbók 23:1-9

23 Þá svaraði Job og sagði:

Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn, hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum.

Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann, hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans!

Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum og fylla munn minn sönnunum.

Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér, og heyra hvað hann segði við mig.

Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns? Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli.

Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann, og ég mundi að eilífu losna við dómara minn.

En fari ég í austur, þá er hann þar ekki, og í vestur, þar verð ég hans eigi var.

Þótt hann hafist að í norðri, þá sé ég hann ekki, og sveigi hann á leið til suðurs, fæ ég ekki litið hann.

Jobsbók 23:16-17

16 Já, Guð hefir gjört mig hugdeigan, og hinn Almáttki skotið mér skelk í bringu.

17 Því að það er ekki vegna ógæfunnar, að ég stend örþrota, né vegna sjálfs mín, þótt niðdimman hylji mig.

Sálmarnir 22:1-15

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

Bréfið til Hebrea 4:12-16

12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.

15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.

16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.

Markúsarguðspjall 10:17-31

17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

18 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.

19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður."`

20 Hinn svaraði honum: "Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku."

21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: "Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."

22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.

23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."

24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.

25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

27 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt."

28 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér."

29 Jesús sagði: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins,

30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society