Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
5 Hver er sú, sem kemur þarna úr heiðinni og styðst við unnusta sinn? Undir eplatrénu vakti ég þig, þar fæddi móðir þín þig með kvöl, þar fæddi með kvöl sú er þig ól.
6 Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér, sem innsiglishring við armlegg þinn. Því að elskan er sterk eins og dauðinn, ástríðan hörð eins og Hel. Blossar hennar eru eldblossar, logi hennar brennandi.
7 Mikið vatn getur ekki slökkt elskuna og árstraumar ekki drekkt henni. Þótt einhver vildi gefa öll auðæfi húss síns fyrir elskuna, þá mundu menn ekki gjöra annað en fyrirlíta hann.
9 Enn sagði hann við þá: "Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar.
10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé,
12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður.
13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt."
14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið mig allir, og skiljið.
15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer." [
16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!]
17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna.
18 Og hann segir við þá: "Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann?
19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna." Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.
20 Og hann sagði: "Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn.
21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp,
22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska.
23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn."
by Icelandic Bible Society