Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.
2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.
3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
4 Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.
5 Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]
8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.
9 Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.
19 Akímaas Sadóksson mælti: "Ég ætla að hlaupa og færa konungi fagnaðartíðindin, að Drottinn hafi rétt hluta hans á óvinum hans."
20 En Jóab sagði við hann: "Þú ert ekki maður til að flytja tíðindin í dag. Öðru sinni getur þú flutt tíðindin, en í dag getur þú ekki flutt tíðindin, því að konungsson er dauður."
21 Því næst sagði Jóab við Blálendinginn: "Far þú og seg konunginum það, sem þú hefir séð." Þá laut Blálendingurinn Jóab og hljóp af stað.
22 Akímaas Sadóksson kom enn að máli við Jóab og mælti: "Komi hvað sem koma vill: Leyf og mér að fara og hlaupa á eftir Blálendingnum." Jóab svaraði: "Til hvers viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, þar sem þér þó eigi munu greidd verða nein sögulaunin."
23 Hann svaraði: "Komi hvað sem koma vill: Ég hleyp." Þá sagði Jóab við hann: "Hlauptu þá!" Þá hljóp Akímaas af stað veginn yfir Jórdansléttlendið og komst á undan Blálendingnum.
24 Davíð sat milli borgarhliðanna tveggja. En sjónarvörðurinn steig upp á þak hliðsins upp á múrinn, hóf upp augu sín og sá, hvar maður kom hlaupandi einn saman.
25 Sjónarvörðurinn kallaði og sagði konungi frá því. En konungur mælti: "Ef hann fer einn saman, þá flytur hann góð tíðindi." En hinn hljóp í sífellu og bar hann óðum nær.
26 Þá sá sjónarvörðurinn annan mann koma hlaupandi. Kallaði sjónarvörðurinn þá niður í hliðið og mælti: "Þarna kemur annar maður hlaupandi einn saman." Þá mælti konungur: "Sá mun og flytja góð tíðindi."
27 Þá sagði sjónarvörðurinn: "Mér sýnist hlaup hins fyrra vera líkt hlaupi Akímaas Sadókssonar." Konungur mælti: "Hann er drengur góður og mun koma með góð tíðindi."
28 Akímaas bar þá að og mælti hann við konung: "Sit heill!" og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem framselt hefir þá menn, er upplyftu hendi sinni gegn mínum herra, konunginum."
29 Konungur mælti: "Líður sveininum Absalon vel?" Akímaas svaraði: "Ég sá mannþröng mikla, er Jóab sendi þjón þinn af stað, en ekki vissi ég hvað um var að vera."
30 Þá sagði konungur: "Gakk til hliðar og stattu þarna." Og hann gekk til hliðar og nam þar staðar.
31 Í því kom Blálendingurinn. Og Blálendingurinn sagði: "Minn herra konungurinn meðtaki þau fagnaðartíðindi, að Drottinn hefir rétt hluta þinn í dag á öllum þeim, er risið hafa í gegn þér."
32 Þá sagði konungur við Blálendinginn: "Líður sveininum Absalon vel?" Blálendingurinn mælti: "Fari svo fyrir óvinum míns herra konungsins og öllum þeim, er gegn þér rísa til að vinna þér tjón, sem sveini þessum!"
33 Þá varð konungi bilt. Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: "Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn, sonur minn!"
14 Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.
15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin.
16 Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar.
17 Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.
by Icelandic Bible Society