Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.
2 Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.
3 _ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?
4 _ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.
5 Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.
6 _ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________
7 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
8 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.
9 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]
37 Besalel gjörði örkina af akasíuviði. Var hún hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.
2 Og hann lagði hana skíru gulli innan og utan og gjörði umhverfis á henni brún af gulli.
3 Og hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli til að festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.
4 Þá gjörði hann stengur af akasíuviði og gulllagði þær,
5 smeygði síðan stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera mátti örkina.
6 Þá gjörði hann lok af skíru gulli. Var það hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.
7 Og hann gjörði tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði gjörði hann þá á hvorum tveggja loksendanum.
8 Var annar kerúbinn á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Gjörði hann kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.
9 En kerúbarnir breiddu út vængina uppi yfir, svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra sneru hvort í móti öðru; að lokinu sneru andlit kerúbanna.
10 Þá gjörði hann borðið af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð.
11 Lagði hann það skíru gulli og gjörði umhverfis á því brún af gulli.
12 Umhverfis það gjörði hann lista þverhandar breiðan og bjó til brún af gulli umhverfis á listanum.
13 Og hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli og setti hringana í fjögur hornin, sem voru á fjórum fótum borðsins.
14 Voru hringarnir fast uppi við listann, svo að í þá yrði smeygt stöngunum til þess að bera borðið.
15 Og hann gjörði stengurnar af akasíuviði og gulllagði þær, svo að bera mátti borðið.
16 Þá bjó hann til ílátin, er á borðinu skyldu standa, föt þau, er því tilheyrðu, skálar og ker, og bolla þá, er til dreypifórnar eru hafðir, _ af skíru gulli.
2 Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð.
3 Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn.
4 Biðjið, að ég megi birta hann eins og mér ber að tala.
5 Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.
6 Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.
7 Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður og samverkamaður í þjónustu Drottins, mun láta yður vita allt um mína hagi.
8 Ég sendi hann til yðar gagngjört til þess að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.
9 Með honum fer Onesímus, minn trúi og elskaði bróðir, sem er einn úr yðar hópi. Þeir munu láta yður vita allt, sem hér gjörist.
10 Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa yður. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þér hafið fengið orð um. Ef hann kemur til yðar, þá takið vel á móti honum.
11 Ennfremur biður Jesús, að viðurnefni Jústus, að heilsa yður. Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir fyrir Guðs ríki, og hafa þeir verið mér til huggunar.
12 Einnig biður Epafras að heilsa yður, sem er einn úr yðar hópi. Hann er þjónn Krists Jesú og berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.
13 Þann vitnisburð gef ég honum, að hann leggur mikið á sig fyrir yður og þá sem eru í Laódíkeu og í Híerapólis.
14 Þá biður hann Lúkas að heilsa yður, læknirinn elskaði, og Demas.
15 Berið kveðju bræðrunum í Laódíkeu. Einnig Nýmfu og söfnuðinum sem kemur saman í húsi hennar.
16 Og þegar búið er að lesa þetta bréf upp hjá yður, þá látið líka lesa það í söfnuði Laódíkeumanna. Lesið þér og bréfið frá Laódíkeu.
17 Segið Arkippusi: "Gættu embættisins, sem þú hefur tekið að þér í Drottni, og ræktu það vel."
by Icelandic Bible Society