Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 1:1

Eftir dauða Sáls, þá er Davíð var heim kominn og hafði unnið sigur á Amalekítum og hann hafði verið tvo daga um kyrrt í Siklag,

Síðari Samúelsbók 1:17-27

17 Davíð orti þetta sorgarkvæði eftir þá Sál og Jónatan son hans,

18 og hann bauð að kenna Júda sonum Kvæðið um bogann. Sjá, það er ritað í Bók hinna réttlátu:

19 Prýðin þín, Ísrael, liggur vegin á fjöllum þínum. En að hetjurnar skuli vera fallnar!

20 Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum, svo að dætur Filista fagni eigi og dætur óumskorinna hlakki eigi.

21 Þér Gilbóafjöll, eigi drjúpi dögg né regn á yður, þér svikalönd, því að þar var snarað burt skildi kappanna, skildi Sáls, sem eigi verður framar olíu smurður.

22 Frá blóði hinna vegnu, frá feiti kappanna hörfaði bogi Jónatans ekki aftur, og eigi hvarf sverð Sáls heim við svo búið.

23 Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu, skildu eigi heldur í dauðanum. Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari.

24 Ísraels dætur, grátið Sál! Hann skrýddi yður skarlati yndislega, hann festi gullskart á klæðnað yðar.

25 En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum!

26 Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.

27 En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!

Sálmarnir 130

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Síðara bréf Páls til Kori 8:7-15

Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu.

Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.

10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum.

11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa.

12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.

13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna,

14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður,

15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

Markúsarguðspjall 5:21-43

21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið.

22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum,

23 bað hann ákaft og sagði: "Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi."

24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann.

25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.

26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.

27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.

28 Hún hugsaði: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."

29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.

30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: "Hver snart klæði mín?"

31 Lærisveinar hans sögðu við hann: "Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?"

32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,

33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.

34 Jesús sagði við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna."

35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: "Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?"

36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: "Óttast ekki, trú þú aðeins."

37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi.

38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan.

39 Hann gengur inn og segir við þá: "Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur."

40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var.

41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: "Talíþa kúm!" Það þýðir: "Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!"

42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun.

43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society