Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
3 Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.
2 Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,
3 og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var.
4 Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: "Hér er ég."
5 Og hann hljóp til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En Elí sagði: "Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa." Fór hann þá og lagðist til svefns.
6 En Drottinn kallaði enn að nýju: "Samúel!" Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En hann sagði: "Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns."
7 En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.
8 Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn.
9 Fyrir því sagði Elí við Samúel: "Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir."` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.
10 Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: "Samúel! Samúel!" Og Samúel svaraði: "Tala þú, því að þjónn þinn heyrir."
11 Drottinn mælti þá við Samúel: "Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.
12 Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans _ frá upphafi til enda.
13 Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim.
14 Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu."
15 Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni.
16 Elí kallaði á Samúel og sagði: "Samúel, sonur minn!" Hann svaraði: "Hér er ég."
17 Elí sagði: "Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig."
18 Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: "Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!"
19 Samúel óx, og Drottinn var með honum og lét ekkert af því, er hann hafði boðað, falla til jarðar.
20 Og allur Ísrael frá Dan til Beerseba kannaðist við, að Samúel væri falið að vera spámaður Drottins.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
5 Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.
6 Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.
7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.
8 Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,
9 ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.
10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.
11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.
12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.
23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.
24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"
25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?
26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."
27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.
28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."
3 Öðru sinni gekk hann í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd,
2 og höfðu þeir nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann.
3 Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: "Statt upp og kom hér fram!"
4 Síðan spyr hann þá: "Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?" En þeir þögðu.
5 Og hann leit í kring á þá með reiði, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra, og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil.
6 Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.
by Icelandic Bible Society