Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
1 Maður er nefndur Elkana. Hann var frá Ramataím-Sófím, frá Efraímfjöllum; hann var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar Efraímíta.
2 Elkana átti tvær konur. Hét önnur Hanna, en hin Peninna. Peninna átti börn, en Hanna átti engin börn.
3 Þessi maður fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa Drottni allsherjar fórnir í Síló. En þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins.
4 Í hvert sinn er Elkana fórnaði, þá gaf hann Peninnu, konu sinni, og öllum sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju.
5 Hann gaf Hönnu ekki nema einn hlut, þótt hann elskaði hana, en Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.
6 Elja hennar skapraunaði henni einnig til þess að reita hana til reiði, af því að Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.
7 Svo gjörði Elkana ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss Drottins, og þannig skapraunaði hún henni. Hanna grét og neytti eigi matar.
8 Þá sagði Elkana, maður hennar, við hana: "Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú eigi matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?"
9 Og Hanna stóð upp, þá er þau höfðu etið í Síló og þá er þau höfðu drukkið. En Elí prestur sat á stól við dyrastafinn á musteri Drottins.
10 Hanna var sárhrygg. Hún bað til Drottins og grét mjög,
11 gjörði heit og mælti: "Drottinn allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann Drottni alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum."
12 Er hún gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins, og Elí tók eftir munni hennar, _
13 en Hanna mæltist fyrir í hljóði; bærðust aðeins varirnar, en rödd hennar heyrðist ekki _, þá hélt Elí, að hún væri drukkin.
14 Þá sagði Elí við hana: "Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu vímuna renna af þér!"
15 Hanna svaraði og sagði: "Nei, herra minn, ég er kona með hryggð í hjarta. Vín hefi ég ekki drukkið né áfengan drykk, en ég hefi úthellt hjarta mínu fyrir Drottni.
16 Ætla þú eigi, að ambátt þín sé afhrak, því að af mínum mikla harmi og trega hefi ég talað hingað til."
17 Elí svaraði og sagði: "Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér það, er þú hefir beðið hann um."
18 Hanna mælti: "Ó að ambátt þín mætti finna náð í augum þínum!" Síðan fór konan leiðar sinnar og mataðist og var eigi framar með döpru bragði.
25 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.
2 Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann
3 að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni.
4 Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað.
5 "Látið því," sagði hann, "ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur."
6 Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram.
7 Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað.
8 En Páll varði sig og sagði: "Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum."
9 Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: "Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?"
10 Páll svaraði: "Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel.
11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans."
12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: "Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara."
by Icelandic Bible Society