Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.
2 Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.
3 Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."
4 Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.
5 Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands.
6 Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu.
7 Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: "Niðjum þínum vil ég gefa þetta land." Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum.
8 Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins.
9 Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti.
14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört.
15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot.
16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra,
17 eins og skrifað stendur: "Föður margra þjóða hef ég sett þig." Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.
18 Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: "Svo skal afkvæmi þitt verða."
19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram _ hann var nálega tíræður, _ og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli.
20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina,
21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.
22 "Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað."
23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis,
24 heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum,
25 hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.
9 Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.
10 Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans.
11 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?"
12 Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.
13 Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."
18 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: "Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna."
19 Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.
20 Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans.
21 Hún hugsaði með sér: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."
22 Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér." Og konan varð heil frá þeirri stundu.
23 Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi,
24 sagði hann: "Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur." En þeir hlógu að honum.
25 Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp.
26 Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað.
by Icelandic Bible Society