Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
8 Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast.
9 Og hún sagði við mann sinn: "Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur.
10 Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar."
11 Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns.
12 Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann.
13 Þá sagði hann við Gehasí: "Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?"` Hún svaraði: "Ég bý hér á meðal ættfólks míns."
14 Þá sagði Elísa við Gehasí: "Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?" Gehasí mælti: "Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall."
15 Þá sagði Elísa: "Kalla þú á hana." Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum.
16 Þá mælti hann: "Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son." En hún mælti: "Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni."
17 En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni.
14 Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina.
15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.
16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.
17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr.
18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.
19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.
20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.
21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.
22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,
23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.
24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?
25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.
by Icelandic Bible Society