Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.
3 "Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"
7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
4 Mesa, konungur í Móab, átti miklar hjarðir. Greiddi hann Ísraelskonungi í skatt hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum.
5 En er Akab var dáinn, braust Móabskonungur undan Ísraelskonungi.
6 Lagði Jóram konungur þá af stað frá Samaríu og kannaði allan Ísrael.
7 Hann sendi og þegar til Jósafats Júdakonungs og lét segja honum: "Móabskonungur hefir brotist undan mér. Vilt þú fara með mér í hernað á móti Móabítum?" "Fara mun ég," svaraði hann, "ég sem þú, mín þjóð sem þín þjóð, mínir hestar sem þínir hestar."
8 Og hann sagði: "Hvaða leið eigum við að fara?" Jóram svaraði: "Leiðina um Edómheiðar."
9 Fóru þeir nú af stað, Ísraelskonungur, Júdakonungur og konungurinn í Edóm. Og er þeir höfðu farið sjö dagleiðir, hafði herinn ekkert vatn og ekki heldur skepnurnar, sem þeir höfðu með sér.
10 Þá sagði Ísraelskonungur: "Æ, Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."
11 En Jósafat mælti: "Er hér enginn spámaður Drottins, að vér getum látið hann ganga til frétta við Drottin?" Þá svaraði einn af þjónum Ísraelskonungs og sagði: "Hér er Elísa Safatsson, sem hellt hefir vatni á hendur Elía."
12 Jósafat sagði: "Hjá honum er orð Drottins!" Síðan gengu þeir Ísraelskonungur, Jósafat og konungurinn í Edóm ofan til hans.
13 En Elísa sagði við Ísraelskonung: "Hvað á ég saman við þig að sælda? Gakk þú til spámanna föður þíns og til spámanna móður þinnar." Ísraelskonungur svaraði honum: "Nei, því að Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."
14 Þá mælti Elísa: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna: Væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs, þá skyldi ég ekki renna til þín auga né virða þig viðlits.
15 En sækið þér nú hörpuleikara." Í hvert sinn sem hörpuleikarinn sló hörpuna, hreif hönd Drottins Elísa.
16 Og hann mælti: "Svo segir Drottinn: Gjörið gryfju við gryfju í dal þessum,
17 því að svo segir Drottinn: Þér munuð hvorki sjá vind né regn, og þó mun þessi dalur fyllast vatni, svo að þér megið drekka, svo og her yðar og skepnur.
18 En Drottni þykir þetta of lítið, hann mun og gefa Móabíta í hendur yðar.
19 Og þér munuð vinna allar víggirtar borgir og allar úrvalsborgir, fella öll aldintré og stemma allar vatnslindir, og öllum góðum ökrum munuð þér spilla með grjóti."
20 Morguninn eftir, í það mund er matfórnin er fram borin, kom allt í einu vatn úr áttinni frá Edóm, svo að landið fylltist vatni.
6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.
7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.
8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _
9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _
10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.
11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.
12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.
13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.
14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.
15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.
16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.
17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.
18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,
19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,
20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.
by Icelandic Bible Society