Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 42

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Sálmarnir 43

43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.

Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?

Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Orðskviðirnir 11:3-13

Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá, en undirferli svikulla tortímir þeim.

Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða.

Réttlæti hins ráðvanda gjörir veg hans sléttan, en hinn óguðlegi fellur um guðleysi sitt.

Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá, en hinir svikulu ánetjast í eigin græðgi.

Þegar óguðlegur maður deyr, verður von hans að engu, og eftirvænting glæpamannanna er að engu orðin.

Hinn réttláti frelsast úr nauðum, og hinn óguðlegi kemur í hans stað.

Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.

10 Borgin fagnar yfir gæfu réttlátra, og þegar óguðlegir farast, gjalla gleðiópin.

11 Borgin hefst fyrir blessun hreinskilinna, en fyrir munn óguðlegra steypist hún.

12 Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir.

13 Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni.

Matteusarguðspjall 9:27-34

27 Þá er Jesús hélt þaðan, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: "Miskunna þú okkur, sonur Davíðs."

28 Þegar hann kom heim, gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: "Trúið þið, að ég geti gjört þetta?" Þeir sögðu: "Já, herra."

29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: "Verði ykkur að trú ykkar."

30 Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: "Gætið þess, að enginn fái að vita þetta."

31 En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.

32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda.

33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: "Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael."

34 En farísearnir sögðu: "Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society