Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
14 Hrelldur maður á heimting á meðaumkun hjá vini sínum, enda þótt hann hætti að óttast hinn Almáttka.
15 Bræður mínir brugðust eins og lækur, eins og farvegur lækja, sem flóa yfir,
16 sem gruggugir eru af ís og snjórinn hverfur ofan í.
17 Jafnskjótt og þeir bakast af sólinni, þorna þeir upp, þegar hitnar, hverfa þeir burt af stað sínum.
18 Kaupmannalestirnar beygja af leið sinni, halda upp í eyðimörkina og farast.
19 Kaupmannalestir frá Tema skyggndust eftir þeim, ferðamannahópar frá Saba reiddu sig á þá.
20 Þeir urðu sér til skammar fyrir vonina, þeir komu þangað og urðu sneyptir.
21 Þannig eruð þér nú orðnir fyrir mér, þér sáuð skelfing og skelfdust.
22 Hefi ég sagt: "Færið mér eitthvað og borgið af eigum yðar fyrir mig,
23 frelsið mig úr höndum óvinarins og leysið mig undan valdi kúgarans"?
24 Fræðið mig, og ég skal þegja, og sýnið mér, í hverju mér hefir á orðið.
25 Hversu áhrifamikil eru einlægninnar orð, en hvað sanna átölur yðar?
26 Hafið þér í hyggju að ásaka orð? Ummæli örvilnaðs manns hverfa út í vindinn.
27 Þér munduð jafnvel hluta um föðurleysingjann og selja vin yðar.
28 Og nú _ ó að yður mætti þóknast að líta á mig, ég mun vissulega ekki ljúga upp í opið geðið á yður.
29 Snúið við, fremjið eigi ranglæti, já, snúið við, enn þá hefi ég rétt fyrir mér.
30 Er ranglæti á minni tungu, eða ætli gómur minn greini ekki hvað illt er?
15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð.
16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, _ þar stendur ekki "og afkvæmum", eins og margir ættu í hlut, heldur "og afkvæmi þínu", eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.
17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi.
18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti.
19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara.
20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn.
21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli.
22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist.
by Icelandic Bible Society