Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.
20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum.
21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum,
22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.
23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti.
24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær.
25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.
26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.
4 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.
2 Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.
3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.
4 Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.
5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,
6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
by Icelandic Bible Society