Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
24 Þegar Bíleam sá, að það var gott í augum Guðs að blessa Ísrael, gekk hann ekki burt eins og í fyrri skiptin til að leita spáfrétta, heldur hélt á leið til eyðimerkurinnar.
2 Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann.
3 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.
4 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:
5 Hve fögur eru tjöld þín, Jakob! bústaðir þínir, Ísrael!
6 Eins og víðir árdalir, eins og aldingarðar á fljótsbökkum, eins og alóetré, er Drottinn hefir gróðursett, eins og sedrustré við vötn.
7 Vatn rennur úr skjólum hans, og sáð hans hefir nægt vatn. Konungur hans mun meiri verða en Agag, og konungdómur hans mun verða vegsamlegur.
8 Sá Guð, sem leiddi hann af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins. Hann upp etur óvinaþjóðir, og bein þeirra brýtur hann og nístir þá með örvum sínum.
9 Hann leggst niður, hvílist sem ljón og sem ljónynja, _ hver þorir að reka hann á fætur? Blessaður sé hver sá, sem blessar þig, en bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér.
10 Balak reiddist þá Bíleam mjög og barði saman hnefunum og sagði við Bíleam: "Til þess að biðja bölbæna óvinum mínum kallaði ég þig, en sjá, þú hefir nú blessað þá þrem sinnum.
11 Far þú því sem skjótast heim til þín! Ég hugðist veita þér mikla sæmd, en sjá, Drottinn hefir svipt þig þeirri sæmd."
12 Þá sagði Bíleam við Balak: "Mælti ég eigi þegar við sendimenn þá, er þú gjörðir til mín, þessum orðum:
13 ,Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins til þess að gjöra gott eða illt eftir hugþótta mínum. Það sem Drottinn mælir, það mun ég mæla`?
14 Og sjá, nú fer ég til minnar þjóðar. Kom, ég vil segja þér fyrir, hvað þessi þjóð mun gjöra þinni þjóð á komandi tímum."
26 En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret,
27 til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María.
28 Og engillinn kom inn til hennar og sagði: "Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér."
29 En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri.
30 Og engillinn sagði við hana: "Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði.
31 Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.
32 Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans,
33 og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða."
34 Þá sagði María við engilinn: "Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?"
35 Og engillinn sagði við hana: "Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.
36 Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja,
37 en Guði er enginn hlutur um megn."
38 Þá sagði María: "Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." Og engillinn fór burt frá henni.
by Icelandic Bible Society