Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 29

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Esekíel 3:12-21

12 Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum,

13 svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta.

14 Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér.

15 Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra.

16 Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

17 "Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.

18 Ef ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt deyja!` og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.

19 En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.

20 Ef hins vegar ráðvandur maður snýr sér frá ráðvendni sinni og fremur ranglæti, og ég legg fótakefli fyrir hann, svo að hann deyr, hafir þú þá eigi varað hann við, þá mun hann deyja fyrir synd sína, og ráðvendni sú, er hann hafði sýnt, eigi til álita koma, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.

21 En varir þú hinn ráðvanda við syndinni, og hann, hinn ráðvandi, syndgar þá ekki, þá mun hann lífi halda, af því að hann var varaður við, og hefir þú þá frelsað sál þína."

Lúkasarguðspjall 9:18-27

18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"

19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."

20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."

21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum

22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."

23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.

24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.

25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?

26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.

27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society