Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
2 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.
3 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til konungs í etaním-mánuði á hátíðinni. (Er sá mánuður hinn sjöundi).
4 Þá komu allir öldungar Ísraels, og levítarnir tóku örkina,
5 og þeir fluttu örkina og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu levítaprestarnir þau upp eftir.
6 En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir.
7 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.
8 Og kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu kerúbarnir örkina og stengur hennar ofan frá.
9 Og stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag.
10 Í örkinni var ekkert nema töflurnar tvær, er Móse lét þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.
11 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum _ því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt,
12 og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra,
13 en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin _ og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu," þá fyllti ský musterið, musteri Drottins,
14 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs.
19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun,
20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.
21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana.
22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi,
23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið."
24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni, segir Festus hárri raustu: "Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan."
25 Páll svaraði: "Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti.
26 Konungur kann skil á þessu, og við hann tala ég djarflega. Eigi ætla ég, að honum hafi dulist neitt af þessu, enda hefur það ekki gjörst í neinum afkima.
27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit, að þú gjörir það."
28 Þá sagði Agrippa við Pál: "Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn."
29 En Páll sagði: "Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er, að frátöldum fjötrum mínum."
by Icelandic Bible Society