Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Síðari Kroníkubók 34:20-33

20 Og konungur bauð þeim Hilkía, Ahíkam Safanssyni, Abdón Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:

21 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir leifarnar af Ísrael og Júda um bókina, sem fundin er, því að mikil er heift Drottins, er hann hefir úthellt yfir oss, af því að feður vorir hafa eigi gefið gætur að boði Drottins með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í bók þessari."

22 Fór þá Hilkía með þeim, er konungur hafði til þess kvatt, til Huldu spákonu, konu Sallúms Tókhatssonar, Hasrasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana um þetta.

23 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:

24 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar þær formælingar, er ritaðar eru í bókinni, er lesin var fyrir Júdakonungi,

25 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, þess vegna úthellti ég reiði minni yfir þennan stað, og hún skal eigi slokkna.

26 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:

27 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú hefir auðmýkt þig fyrir Guði, er þú heyrðir orð hans gegn þessum stað og íbúum hans, og af því að þú auðmýktir þig fyrir mér og reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég bænheyrt þig, _ segir Drottinn.

28 Sjá, ég vil láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.

29 Þá sendi konungur og safnaði saman öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.

30 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og levítarnir og allur lýðurinn, bæði gamlir og ungir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.

31 Og konungur gekk á sinn stað og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, til þess að breyta þannig eftir orðum sáttmálans, þeim er rituð voru í þessari bók.

32 Og hann lét alla þá, er voru í Jerúsalem og Benjamín, gangast undir sáttmálann, og Jerúsalembúar breyttu samkvæmt sáttmála Guðs, Guðs feðra þeirra.

33 En Jósía afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna, og þröngvaði öllum þeim, er voru í Ísrael, til þess að þjóna Drottni Guði sínum. Meðan hann var á lífi, viku þeir eigi frá því að fylgja Drottni, Guði feðra sinna.

Lúkasarguðspjall 2:25-38

25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.

26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,

28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

29 "Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,

30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,

32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael."

33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.

34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: "Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar."

36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær

37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.

38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society