Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
11 En postularnir og bræðurnir í Júdeu heyrðu, að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs.
2 Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem, deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu:
3 "Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim."
4 En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti:
5 "Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá, frá mér numinn, sýn, hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín.
6 Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins,
7 og ég heyrði rödd segja við mig: ,Slátra nú, Pétur, og et!`
8 En ég sagði: ,Nei, Drottinn, engan veginn, því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn.`
9 Í annað sinn sagði rödd af himni: ,Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!`
10 Þetta gjörðist þrem sinnum, og aftur var allt dregið upp til himins.
11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið, sem ég var í, sendir til mín frá Sesareu.
12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða, og vér gengum inn í hús mannsins.
13 Hann sagði oss, hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu, er sagði: ,Send þú til Joppe og lát sækja Símon, er kallast Pétur.
14 Hann mun orð til þín mæla, og fyrir þau munt þú hólpinn verða og allt heimili þitt.`
15 En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi.
16 Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.`
17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?"
18 Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs."
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.
2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.
3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.
4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."
5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."
6 Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.
31 Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: "Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum.
32 Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan.
33 Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.
34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.
35 Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars."
by Icelandic Bible Society